Skammtímavistun á Sauðárkróki hlýtur styrk
Fiskisæla er fiskréttarhlaðborð í Ljósheimum sem haldið hefur verið í Sæluvikunni undanfarin ár, en allur ágóði af greiðasölunni rennur til góðgerðamála. Í ár naut Skammtímavistun á Sauðárkróki góðs af Fiskisæludögunum, en upphæðin sem um ræðir var alls 170 þúsund krónur sem á eftir að koma að góðum notum og eru starfsmenn vistunarinnar þakklátir fyrir stuðninginn.
Skammtímavistun fyrir fatlaða er staðsett á Grundarstíg 22 á Sauðárkróki og þjónustar allt Norðurland vestra. Vistuninni er ætlað að létta álagi af fjölskyldum fatlaðra barna og ungmenna sem búa heima hjá foreldrum. Einnig veitir Skammtímavistun þeim sem nýta þjónustuna tilbreytingu og undirbýr þau fyrir flutninga að heiman.
Þær Sigrún Aadnegard og Margrét Sigurðardóttir afhentu afrakstur Fiskisæludaga 21. maí síðastliðinn og var það Tinna Rut Sigurbjörnsdóttir, barnabarn Sigrúnar sem tók við gjöfinni fyrir hönd Skammtímavistunar.
Tinna Rut tekur við afrakstri Fiskisæludaga frá ömmu sinni, Sigrúnu Aadnegard