Skarð í vegg við Glaumbæ

Eins og sjá má er veggurinn illa farinn. Mynd: Facebooksíða Byggðasafns Skagfirðinga.
Eins og sjá má er veggurinn illa farinn. Mynd: Facebooksíða Byggðasafns Skagfirðinga.

Það voru ekki falleg ummerkin eftir hópferðabíl sem bakkaði á hlaðinn torfvegg við Byggðasafn Skagfirðinga í Glaumbæ í gær og sagt var frá á Facebooksíðu safnsins. Í viðtali við mbl.is í morgun segir Sigríður Sigurðardóttir, safnstjóri, að þar sem veggurinn sé rakur og mjúkur eftir veturinn þurfi ekki mikið til að svona geti gerst ef stór bíll rekst á vegginn. 

Þegar mbl.is ræddi við Sigríði í morgun sagði hún að vitað væri hver sökudólgurinn væri en hann hefði bara keyrt í burtu án þess að láta frá sér heyra. Haft hefði verið samband við fyrirtæki mannsins í því skyni að fá það til að greiða hluta af kostnaði við viðgerð á veggnum sem gæti kostað um hálfa milljón króna.

Þessi ánægjulegu tíðindi mátti svo lesa á Facebooksíðu safnsins um hádegisbilið: „Hópferðabílstjórinn sem bakkaði á garðinn umhverfis safnlóðina svo hann féll á parti hefur haft samband og ætlar að gera við garðinn sjálfur. Góður maður."

Þar með hefur þetta leiðindaatvik vonandi hlotið farsælan endi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir