Skemmdir unnar í Skógarhlíðinni ofan Sauðárkróks

Ófögur sjón í Skógarhlíðinni. Hvað gengur fólki til?  MYND AF VEF SVEITARFÉLAGSINS
Ófögur sjón í Skógarhlíðinni. Hvað gengur fólki til? MYND AF VEF SVEITARFÉLAGSINS

Sagt er frá því að vef Sveitarfélagsins Skagafjarðar að ófögur sjón hafi blasað við starfsmönnum þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins í byrjun desember þegar farið var um Skógarhlíðina fyrir ofan vatnshúsið á Sauðárkróki. Svo virðist sem óprúttnir aðilar hafi leikið sér að því að höggva niður tré með öxi eða álíka verkfærum til þess eins að skemma. Um tíu tré voru felld og meirihluti þeirra falleg og stæðileg tré. 

Tréin eiga það sameiginlegt að vera staðsett nálægt veginum hjá vatnshúsinu svo líklegt er að aðilarnir hafi ferðast um á bíl og fellt það sem næst var hendi. Skógarhlíðin og Litli-skógur komu illa undan síðasta vetri og þurfti að grisja mikið af trjám sem höfðu brotnað vegna snjóþunga. Þetta eru því einkar ljót sár á svæðum þar sem nú þegar var búið að grisja.

Í fréttinni kemur fram að málið hafi verið kært til lögreglu og eru þeir sem geta veitt upplýsingar um skemmdarverkin hvattir til að hafa samband við Lögregluna á Norðurlandi vestra eða starfsmenn þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins.

Heimild: Skagafjordur.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir