Skiptir skipulag máli?

Álfhildur Leifsdóttir. MYND AÐSEND
Álfhildur Leifsdóttir. MYND AÐSEND

Skipulagsgögn eiga að tryggja samráð við almenning og öll eiga að hafa tækifæri til þess að hafa áhrif á skipulagsákvarðanir sveitarfélaga. Öll hafa aðgengi að skipulagsáformum og leiðum til að koma skoðunum sínum á framfæri áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar og er mikilvægt að nýta sér það. Ábendingar og mótmæli íbúa og hagsmunaaðila eiga að geta leitt til breytinga á skipulagsáformum eða að hætt sé alfarið við þau.

Skipulag er formleg og bindandi áætlun sveitarstjórnar um ráðstöfun lands og fyrirkomulag byggðar. Í skipulagi er t.d. ákveðið hvar íbúðarbyggð vex, hvar frístundabyggð er staðsett sem og verslun eða landbúnaðarland. Þar eru líka skipulag gatna og lóða, fjölda íbúða og reglur um hönnun einstakra bygginga, eins og fjölda hæða, byggingarefni, þakform og jafnvel litaval.

Sveitarfélög taka ákvarðanir um að móta og ráðstafa landi til mismunandi uppbyggingar, nýtingar eða verndar. Það er mikilvægt að horfa til langs tíma í skipulagsmálum, samþætta ólík sjónarmið og hafa sjálfbæra þróun og almannahagsmuni að leiðarljósi í þeirri vinnu. Til þess að almannahagsmunir séu skýrir þarf þessi vinna að eiga sér stað í samráði við íbúa og hagsmunaaðila.

Hvernig virkar þetta skipulag?

En skipulagsmál eru oft á tíðum frekar flókin, ferlarnir eru nokkrir og oft langir. Það er eðlilegt að skipulagsmál séu ekki fólki efst í huga í annríki hversdagsleiksins nema að áformin varði þá helst þeirra næsta nágrenni. En þegar áformin eru komin svona nálægt þá eru þau gjarnan einnig komin frekar langt í ferlinu. Því er mikilvægt að vera vakandi fyrir framtíðarskipulagi í sínu samfélagi.

Skipulagsnefnd vinnur aðallega með tvö stig skipulags, aðalskipulag og deiliskipulag. Aðalskipulag er heildarstefna sveitarfélags um landnotkun, náttúruvernd og þróun byggðar í öllu sveitarfélaginu. Deiliskipulag er nánari útfærsla á aðalskipulagi fyrir afmarkað svæði eða reit, sem felur í sér nákvæmari ákvæði um einstakar lóðir og byggingar.

Þrepaskipt skipulagsferli

Í flestum tilfellum skiptist skipulag í nokkur þrep. Skipulagslýsing er fyrsta skref, þar sem almenningur og hagsmunaaðilar geta komið með umsagnir/athugasemdir en ekki er skylt að svara þeim sérstaklega. Umsagnirnar eru hins vegar teknar saman og notaðar í áframhaldandi vinnu skipulagsins sem kallast þá skipulagstillaga í vinnslu.

Skipulagstillagan er svo samþykkt í skipulagsnefnd og síðar sveitarstjórn og því næst sett í auglýsingu þar sem almenningur/hagsmunaaðilar geta aftur komið með umsagnir/athugasemdir við hana. Úr þeim umsögnum/athugasemdum vinnur skipulagsnefnd og er þeim öllum svarað formlega. Eftir atvikum eru gerðar breytingar á tillögunni í kjölfarið. Teljist þær vera meiriháttar þarf að auglýsa tillöguna að nýju. Að þessu ferli loknu getur sveitarstjórn samþykkt endanlegt skipulag og ákveðið að senda til yfirferðar Skipulagsstofnunar.

Hverjum þeim sem telur rétti sínum hallað eða hallað á lögvarða hagsmuni með samþykkt sveitarstjórnar er heimilt að kæra leyfisveitingu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

 

Láttu þig málið varða

Það er mikilvægt fyrir almenning að fylgjast vel með skipulagsmálum og er t.d. hægt að vera í áskrift af tilteknum málum og/eða landsvæðum á Skipulagsgáttinni en þar birtast upplýsingar um allar skipulagstillögur. Ég hvet íbúa til að nýta tækifæri til samráðs, eins og opna íbúafundi eða að taka spjallið við kjörna fulltrúa um málefnin. Eins að skrifa umsagnir við tillögur í skipulagsgátt á hverjum tíma og virkja fleiri í til að gera slíkt hið sama. Mikilvægt er að vera með skýrar ábendingar og vel rökstuddar athugasemdir.

Skipulagsnefnd sveitarfélagsins gerir á hverjum tíma sitt besta í ákvarðanatökum er varða skipulagsmál. Staðreyndin er hins vegar sú að bakgrunnur og þekking kjörinna fulltrúa er af ýmsum toga og hafa þeir ekki endilega sérþekkingu á þessum málaflokki. Staðreyndin er líka sú að skipulagsslys hafa í gegnum tíðina átt sér stað þrátt fyrir góðan vilja. Þess vegna hvet ég íbúa til að koma sínum ábendingum og skoðunum á framfæri og gefa þannig nefndinni hugmyndir en veita henni um leið aðhald. Af reynslu nýliðinna íbúafunda er varða skipulagsmál er augljóst að það er ákall frá íbúum eftir málefnalegu samtali um skipulag og framtíðaruppbyggingu sveitarfélagsins og er fagnaðarefni að þeir láti sig málin varða með þessum hætti.

Með samtalinu kvikna nefnilega hugmyndir og til verða lausnir sem annars myndu ekki fæðast. Það er mikilvægt að raddir íbúa heyrist, að raunverulega sé hlustað á þær og brugðist við þeim, því saman gerum við gott skipulag betra.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir