Skoða Alexandersflugvöll sem mögulega útstöð flugkennslu

Skagfirðingar hafa óneitanlega orðið varir við aukna flugumferð á Alexandersflugvelli á Sauðárkróki undanfarna daga þar sem litlar flugvélar taka á loft og lenda í sífellu. Þarna er um kennsluvélar að ræða frá Flugskólanum Keili en verið er að kanna aðstæður með hugsanlega útstöð skólans í Skagafirði í framtíðinni.
Arnbjörn Ólason, markaðsstjóri Keilis, segir að 14 kennsluvélar séu í notkun hjá skólanum og gríðarlegur áhugi á atvinnuflugmannsnámi bæði meðal Íslendinga og erlendra nemenda en á sama tíma eru þrengingar á Keflavíkurflugvelli vegna aukins millilandaflugs. „Þannig að við erum að skoða ýmsa möguleika í framhaldinu fyrir okkur til þess að geta flogið ennþá meira og erum því að skoða það að setja útstöð á Sauðárkróki. Til að byrja með er þetta tilraunaverkefni en sjáum fyrir okkur að næsta vor og sumar gætum við farið að fljúga dag og nótt og þá verið með nokkrar vélar meðan viðrar vel til flugs.“
Hugmyndin er að Keilir og Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra vinni að þessu verkefni í samvinnu og segir Þorkell V. Þorsteinsson, skólameistari FNV, að skólinn muni m.a. koma að því að hýsa nemendur og kennara ef þetta verður ofan á. „Það er samt ekki búið að semja um neitt slíkt ennþá en alveg möguleiki á frekara samstarfi,“ segir Þorkell og ef þetta festir rætur gæti fólk hugsanlega komið og tekið flugtímana í FNV.
Nánar er rætt við þá Arnbjörn og Þorkel í nýprentuðum Feyki sem kemur út í dag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.