Skortur á "bótoxi" tefur ísbjarnauppstoppun
Gjaldeyriskrísan hefur tekið á sig alveg nýja mynd en ekki hefur tekist að klára uppstoppun á Ísbirninum sem veginn var á Þverárfjalli í byrjun júní né birnunni sem vegin var við Hraun þar sem beðið er eftir varafylliefni, bótoxi, frá Bandaríkjunum.
-Þetta er alveg að hafast hjá okkur. Við erum í raun að verða búnir með báða birnina en höfum verið að bíða aðeins eftir þessu varafylliefni sem við pöntum frá Bandaríkjunum, segir Haraldur Ólafsson uppstoppari á Akureyri. -Það hefur hins vegar ekki fengist afgreitt líkt og aðrar vörur en við erum búnir að leysa þetta eftir öðrum leiðum og gerum ráð fyrir að fá efnið í lok vikunnar. Birnirnir tveir ættu því að vera tilbúnir til afhendingar upp úr miðjum næsta mánuði en þó þurfum við að passa upp á að vegir séu auðir þegar þeir leggja í hann enda má þetta ekki hristast í sundur á leiðinni, bætir hann við.
Aðspurður segir Haraldur að hann komi nú til með að sakna bjarnanna úr skúrnum hjá sér enda taki þeir mikið pláss og eins veki þeir mikla athygli. -Það hafa margir heimsótt mig til þess að fá að skoða birnina bæði leikskólahópar og einstaklingar og það verður því mikið minna um að vera hjá mér eftir að þeir verða farnir.
Björninn mun fara á Náttúrustofu Norðurlands vestra á Sauðárkróki en birnan mun fara á Hafíssetrið á Blönduósi.