Skotar í heimsókn hjá Fornverkaskólanum

Sex Skotar eru í heimsókn hjá Fornverkaskólanum um þessar mundir sem vilja kynna sér aðferðir sem notast er við í menningararfsþjónustu, -rannsóknum og -fræðslu. Samkvæmt heimasíðu Byggðasafns Skagfirðinga tengist þetta evrópsku samstarfsverkefni sem nefnist CHIST (Cultural Heritage Interpretation and Sustainable Tourism) og Fornverkaskólinn er þátttakandi í.

Fornverkaskólinn hefur verið þátttakandi verkefninu frá árinu 2012 og er það styrkt af Menntaáætlun Evrópusambandsins. Samstarfsaðili Fornverkaskólans í verkefninu eru skosk samtök sem nefnast Arch Network.

Bryndís Zoëga, verkefnisstjóri Fornverkaskólans, annast hópinn á meðan hann er hér og sér um að þau hafi nóg að gera. Hún er búin að taka á móti tveimur öðrum sex manna hópum frá Skotlandi, á jafn mörgum árum. Þátttakendurnir koma frá ýmsum stofnunum, fyrirtækjum og félagasamtökum og eiga það sameiginlegt að starfa við minjavörslu eða menningarferðaþjónustu,“ segir á vefnum.

Hópurinn dvelur hér frá 18.-25. maí. Á meðan á dvölinni stendur reyna þau á eigin skinni hvernig er að skera torf og hlaða úr því, þau skoða ýmis hús og heyra um og ræða minjatengd mál. Gert  er ráð fyrir að verkefninu ljúki í lok þessa árs. Nánar um dagskrá hópsins má sjá á heimasíðu safnsins.

 

Fleiri fréttir