Skvísur til styrktar skvísu
Sólveig B. Fjólmundsdóttir hefur hrint af stað söfnun þar sem hægt er að kaupa skvísur til styrktar skvísunni og Skagfirðingnum Elísabetu Sóleyju Stefánsdóttur, sem glímir við illvígt krabbamein. Brúsarnir eru til sölu í Sauðárkróksbakaríi og í Þreksporti en einnig er hægt að hafa samband við Sólveigu í gegnum facebook, hana er einnig að finna í símaskránni.
Elísabet Sóley, sem var í opnuviðtali hjá Feyki í októbermánuði, hefur skrifað um líðan sína inn á vefinn innihald.is og hvernig baráttan við meinið miðar áfram. Nýjustu fréttir herma að hún hafi flogið til London í morgun þar sem hún mun ganga undir geislunarmeðferð með svokölluðum gammageislum til að vinna gegn meinvörpum í höfði hennar, sem komu í ljós í síðustu viku. Aðgerðin verður á morgun og flýgur hún svo heim seinnipart föstudags.
Sólveig vildi leggja vinkonu sinni lið í veikindunum og leitaði til nokkurra fyrirtækja sem gerðu henni kleift að láta merkja skvísur eða drykkjarbrúsa og rennur söluverð óskipt til Elísabetar. Söfnun hefur farið ákaflega vel af stað að sögn Sólveigar. Stykkið kostar 1.500 kr. en frjálst er að leggja meira til ef viðkomandi vill.
„Ótrúlega þakklát hvað þessu hefur verið vel tekið og hvað fólk er fljótt að bregðast við. Það er notalegt að finna samhug samfélagsins,“ segir Sólveig í samtali við Feyki en einnig segir hún Elísabetu vera djúpt snortna, þakkláta fyrir stuðninginn og fyrir allar fallegu kveðjurnar, bænirnar og hlýju hugsanirnar.
Þeir sem vilja leggja Elísabetu lið þá er reikn.nr. söfnunarinnar sem Sólveig stendur fyrir: 0161-05-70437 kt: 180479-4309.