Skyldusigur á stigalausum Valsmönnum
Tindastólsmenn gerðu ágæta ferð suður í dag en þar mættu þeir liði Vals í Iceland Express deildinni. Ekkert annað en sigur var á dagskránni hjá Stólunum en lið Vals hefur enn ekki sigrað í deildinni og er því stigalaust. Leikurinn var jafn framan af en í þriðja leikhluta skutust Stólarnir framúr og lönduðu öruggum sigri, 61-74.
Valsmenn höfðu frumkvæðið í byrjun, komust í 8-4 og 12-8 en síðan jöfnuðu Stólarnir leikinn og Svabbi kom þeim yfir 12-14. Jafnt var að loknum fyrsta leikhluta 14-14 en í öðrum leikhluta voru það Stólarnir sem náðu yfirhöndinni þó þeir færu ekki langt framúr Völsurum og í leikhléi var staðan 26-29.
Rikki hafði átt erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik en í þriðja leikhluta fór hann mikinn, gerði fimm 3ja stiga körfur á fimm mínútna kafla og á þeim tíma breyttist staðan úr 28-30 í 37-49 og staða Tindastóls orðin væn. Staðan 43-54 að loknum þriðja leikhluta. Valsmönnum tókst aldrei að minnka muninn svo nokkru næmi síðustu 10 mínúturnar, munurinn yfirleitt 7-13 stig á liðunum og á endanum fór svo að Stólarnir höfðu stigin 2 með sér heim, lokatölur sem fyrr segir 61-74.
Curtis Allen átti ágætan leik fyrir Stólana en hann gerði 15 stig og tók 10 fráköst auk þess sem hann stal 4 boltum. Rikki var hins vegar stigahæstur með 19 stig sem hann gerði nánast öll í einum rikk. Þá var Þröstur Leó drjúgur með 14 stig og 7 fráköst. Hjá Valsmönnum var Marvin Andrew Jackson stigahæstur með 18 stig og hann tók 14 fráköst. Skotnýting hans var hins vegar með ólíkindum, hann setti niður 3 skot í 20 tilraunum innan teigs og 2 af 9 í 3ja stiga skotum en skotnýting Valsmanna var aðeins 29% innan teigs.
Með sigrinum komust Tindastólsmenn í sjöunda sætið í deildinni en keppnin um sæti í úrslitakeppninni stendur einkum á milli 5 liða; Snæfells, Tindastóls, Njarðvíkur, Fjölnis og ÍR. Næsti leikur Tindastóls er hér heima 1. mars en þá kemur lið Hauka í heimsókn en Hafnfirðingar hafa verið að leika vel upp á síðkastið, þrátt fyrir að vera í 11. sæti með 8 stig, og eru sýnd veiði en ekki gefin. Sigur er algjört möst fyrir Stólana og því full ástæða til að fjölmenna í Síkið og styðja strákana til sigurs.
Stig Tindastóls: Rikki 19, Allen 15, Þröstur Leó 14, Svavar 8, Tratnik 8, Miller 6, Helgi Rafn 2 og Helgi Freyr 2.