Smökkuðu Bláan Opal í beinni

Mikil spenna ríkti í stúdíói K100 er Kristín og Ásgeir opnuðu Opal pakkann. Með þeim á myndinni er Már Hall Opalaðdáandi. Mynd: k100.mbl.is
Mikil spenna ríkti í stúdíói K100 er Kristín og Ásgeir opnuðu Opal pakkann. Með þeim á myndinni er Már Hall Opalaðdáandi. Mynd: k100.mbl.is

Blár Opal er eflaust það sælgæti sem Íslendingar sakna hvað mest miðað við orðið á götunni. Viðmælendur Feykis í tbl. 28 í spurningu vikunnar voru allavega sammála um að allir vildu fá Bláan Opal er þeir voru spurðir hvaða vöru þeir vildu fá aftur sem væri hætt í framleiðslu. Þáttastjórnendur morgunþáttarins Ísland vaknar á K100 duttu heldur betur í lukkupottinn í vikunni er þeim áskotnaðist heill pakki af sælgætinu goðsagnakennda og jöppluðu á því í beinni.

Blár Opal hefur ekki verið fáanlegur frá því árið 2005 en hætti þurfti framleiðslunni vegna reglugerðar sem bannaði lykil innihaldsefnið, klóróform. Fór þetta heldur illa í landann og hömstruðu margir síðustu pakkana og er víst óhætt að segja að þeir hafi verið rifnir úr hillunum og eflaust faldir vel og vandlega á ýmsum heimilum.

Upp á síðkastið hefur Blár Opal mikið verið í umræðunni og hafa Kristín Sif og Ásgeir Páll, þáttastjórnendur Ísland vaknar, mikið fjallað um sælgætið góða síðustu daga. Endaði sú umfjöllun á því að hlustandi þáttarins og aðdáandi Bláa Opalsins, Már Hall, færði þeim einn pakka. Það er því ljóst að enn leynast pakkar af Bláa gullinu hjá landanum.

Fyrir þá sem vilja leggja baráttunni um að fá Bláan Opal aftur lið vill Feykir minna á undirskriftarsöfnunina sem Nói Siríus stendur fyrir sem skorar á stjórnvöld að leyfa framleiðslu á einum skammti af þessu eftirsótta sælgæti.

Hér fyrir neðan má sjá viðbrögð er þau smökkuðu opalinn.

VIÐVÖRUN: MYNDBANDIÐ GÆTI VALDIÐ ÓHUG HJÁ OPALSJÚKUM  

/SHV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir