Söfnun vegna kaupa á líkbíl

Frá afhendingu gjafarinnar. F.v. Ingólfur Guðmundsson, Bjarki Tryggvason, Ingimar Jóhannsson, Ásmundur Pálmason, Friðrik Pálmason, Svala Jónsdóttir og Ásta Pálmadóttir. Mynd: Guðrún Sighvatsdóttir.
Frá afhendingu gjafarinnar. F.v. Ingólfur Guðmundsson, Bjarki Tryggvason, Ingimar Jóhannsson, Ásmundur Pálmason, Friðrik Pálmason, Svala Jónsdóttir og Ásta Pálmadóttir. Mynd: Guðrún Sighvatsdóttir.

Þann 21. desember síðastliðinn færðu eigendur Steypustöðvar Skagafjarðar ehf. Kiwanisklúbbnum Drangey eina milljón króna að gjöf vegna söfnunar klúbbsins fyrir nýjum líkbíl handa sóknarnefnd Sauðárkrókskirkju til minningar um Pálma Friðriksson.

Pálmi Friðriksson var fæddur þann 21. desember árið 1943 á Svaðastöðum í Skagafirði, hann lést þann 8. janúar 1998, nýlega orðinn 54 ára gamall. Hann var Pálmi Friðriksson. Aðsend mynd.meðlimur í Kiwanisklúbbnum Drangey til margra ára og naut þess að starfa þar með félögum klúbbsins. Hann var einnig fyrstur til að fara með vél inn í Kirkjugarð Sauðárkróks til að taka grafir árið 1971 en áður hafði það alltaf verið gert með haka og skóflu. Fyrirtæki í eigu Pálma og tengd honum hafa sinnt grafartöku í garðinum æ síðan.

Í árslok 2019 hóf Kiwanisklúbburinn Drangey söfnun með 500 þúsund króna framlagi til endurnýjunar á líkbíl fyrir kirkjusóknirnar í Skagafirði. Núverandi líkbifreið er 39 ára gömul, afturdrifin og eyðslufrek, og er bæði dýr og óhentug í rekstri. Reikna má með því að það kosti 9-10 milljónir að endurnýja bílinn með þeim búnaði sem til þarf í slíka bifreið. Kiwanisklúbburinn samþykkti á fundi sínum 14. janúar að bæta við 250 þúsund krónum í sjóðinn og sömu upphæð gaf ÓK gámaþjónusta. Klúbburinn vonast til þess að fyrirtæki, félagasamtök og klúbbar í Skagafirði verði ekki eftirbátar Steypustöðvar Skagafjarðar ehf. og skorar á aðra klúbba og einstaklinga að styðja við þetta þarfa verkefni sem kemur okkur öllum til góða sem hér búum.

Reikningsnúmer söfnunarinnar er 0310-22-001029, kt. 560269-7659.

Það voru félagarnir Ingólfur Guðmundsson og Bjarki Tryggvason frá Kiwanisklúbbnum Drangey sem veittu gjöfinni viðtöku ásamt Ingimar Jóhannssyni og Guðrúnu Sighvatsdóttur frá sóknarnefnd Sauðárkrókskirkju.

 

Ingimar Jóhannsson,
formaður sóknarnefndar Sauðárkrókskirkju

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir