Sögudagur á Sturlungaslóð
Viðamikil og metnaðarfull dagskrá verður haldin á Sturlungaslóð í Skagafirði laugardaginn 14. ágúst nk. og hefst kl 13 á Reynistað. Dagskrá dagsins er ókeypis.
Á Reynistað mun Sigríður Sigurðardóttir safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga segja frá merkum Ásbirningum sem þar bjuggu m.a. Brandi Kolbeinssyni sem drepinn var í Haugsnesbardaga. Þá syngur Helga Rós Indriðadóttir sópransöngkona ljóð sem samin voru eftir fall hans.
Kl 15 verður grjóherinn sem Sigurður Hansen í Kringlumýri hefur verið að koma fyrir á grundunum neðan við Haugsnesið tekinn formlega í notkun. Þar verður boðið upp á leiki fyrir börnin m.a. að prófa sig í vopnfimi.
Kl 17 verður staddur sögumaður á Örlygsstöðum sem tekur á móti gestum og fræðir þá um Örlygsstaðabardaga.
Um kvöldið kl 20-24 verður Ásbirningablót í Miðgarði. Þar stíga ýmsir á stokk, karlakórinn Heimir ásamt Agnari Gunnarssyni á Miklabæ, Einar Kárason rithöfundur, Bjarni Maronsson og Nanna Rögnvaldardóttir matgæðingur.
Miðinn á matinn og skemmtunina kostar 5.500 kr og panta þarf fyrir kl 16 föstudaginn 13. ágúst á Hótel Varmahlíð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.