Sögusetur íslenska hestsins í nýtt húsnæði
Sögusetur íslenska hestsins á Hólum í Hjaltadal flutti í nýuppgert húsnæði og opnaði fyrsta áfanga af þremur í yfirlitssýningunni, Íslenski hesturinn og myndbands- og ljósmyndasýninguna, Hesturinn í náttúru Íslands, laugardaginn 14. ágúst. Katrín Jakobsdóttir menningar- og menntamálaráðherra opnaði sýningarnar og hr. Jón Aðalsteinn Baldvinsson Hólabiskup blessaði húsið.
Þá tóku fjölmargir aðrir til máls s.s. Arna Björg Bjarnadóttir forstöðumaður Sögusetursins, Þorvaldur Kristjánsson formaður Hollvinasamtaka Sögusetursins, Bjarni Jónsson forseti sveitastjórnar Skagafjarðar og Skúli Skúlason rektor Hólaskóla. Þá færði Sigurður Sigmundsson hestaljósmyndari Sögusetrinu og Eiðfaxa ljósmyndasafn sitt að gjöf. Sögusetrið sem er alþjóðleg miðstöð þekkingar og fræðslu um sögu íslenska hestsins vinnur m.a. að skönnun og skráningu ljósmynda.
Fjölmennt var á opnunarhátíðinni og í tilefni hennar var Sögusetrið opið til klukkan 22 um kvöldið. Sýningarnar hlutu mikið lof gesta og sömuleiðis endurgerðin á húsnæðinu sem virðist hafa tekist afar vel. Upphaflega var húsið byggt sem hesthús, hlaða og geymsla árið 1931 en hefur gegnt ýmsum hlutverkum síðan. Sögusetrið verður opið alla daga í ágúst frá kl. 10 til 18 og eftir samkomulagi á öðrum tímum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.