Sönglög á aðventu annað kvöld
Umfangsmiklir jólatónleikar, undir yfirskriftinni Sönglög í aðventu, verða haldnir í Menningarhúsinu Miðgarði á morgun, föstudaginn 5. desember, kl. 20:30. Fram kemur fjöldi skagfirskra tónlistarmanna en sérstakur gestur að þessu sinni er hin ástsæla söngkona Jóhanna Guðrún Jónsdóttir.
Feykir sló á þráðinn til Jóhönnu Guðrúnar skömmu fyrir aðventuna og sagðist hún full eftirvæntingar að koma í Skagafjörðinn. „Á dagskránni eru jólalög og þetta verður voða hátíðlegt og fallegt, sagði hún um dagskrá tónleikanna.“
Á svið með Jóhönnu Guðrúnu stíga m.a. Óskar Pétursson frá Álftagerði, Íris Olga Lúðvíksdóttir, Sigvaldi. Helgi Gunnarsson, Kolbrún Grétarsdóttir, Bergrún Sóla og Malen Áskelsdætur, Gunnar Rögnvaldsson og Jón Hallur Ingólfsson, ásamt sameinuðum barnakór Árskóla og Varmahlíðarskóla og sérstakri hljómsveit kvöldsins. Jón Hallur Ingólfsson og Óskar Pétursson munu kynna dagskrána.
Miðasala fer fram á midi.is og þegar Feykir hafði samband við Stefán Gíslason, einn forsvarsmanna tónleikanna, fyrir nærri tveimur vikum voru á þriðja hundrað miðar seldir. „Þetta hefur nú aldrei farið svona vel af stað verð ég að segja og mikil stemning í hópnum sem stendur að tónleikunum,“ sagði hann. Það er því um að gera að tryggja sér miða í tíma, enda styttist verulega í tónleikana.