Söngstund í fjárhúsum :: Sönghópurinn Veirurnar heimsækir Norðlendinga

Veirurnar eiga sér 32 ára farsæla sögu og meira en helmingur kórfélaga hefur verið með frá upphafi. Aðsend mynd.
Veirurnar eiga sér 32 ára farsæla sögu og meira en helmingur kórfélaga hefur verið með frá upphafi. Aðsend mynd.

Í haustlitunum bjóða bændur í Húnavatnssýslu, Skagafjarðarsýslu, í Þingeyjarsveit, og Sönghópurinn Veirurnar upp á „Söngstund í fjárhúsum“ föstudaginn 21. og laugardaginn 22. október. Frítt er inn á meðan húsrúm leyfir.

Sönghópurinn Veirurnar mun flytja íslenskar og erlendar kórperlur en kórinn leggur nú land undir fót, má segja á heimaslóðir þar sem að flestir kórmeðlimir eiga ættir sínar að rekja til þessara sveita. Flestar syngja Veirurnar í öðrum kórum og í hópnum eru mikil fjölskyldutengsl. Stjórnandi Veiranna er Margrét Hrafnsdóttir.

„Saga Veiranna er um margt ólík sögu annarra kóra. Lengi framan af var hann stjórnandalaus, æfði stopult og hélt ekki tónleika. Kórinn á sér engu að síður 32 ára farsæla sögu og meira en helmingur kórfélaga hefur verið með frá upphafi. Veirurnar hafa gefið út tvo geisladiska sem bera heitin, Stemning og Jólastemning, sem verða til sölu við innganginn,“ segir Veiran Pálína Vagnsdóttir, og bætir við að enginn posi verði á staðnum.

Söngperlurnar sem fluttar verða í fjárhúsunum eru m.a. Bourrée, Enn syngur vornóttin, Gömul vísa um vorið, Við vöggu dóttur minnar, Litla kvæðið um litlu hjónin, svo eitthvað sé nefnt.

Hvar og hvenær er sungið og hverjir opna fjárhús sín?
„Fjörið mun hefjast föstudaginn 21. október er sungið verður að Syðri Brekkum í Húnavatnssýslu. Það er Magnús Sigurjónsson að Syðri Brekkum sem tekur fyrstur á móti Veirunum og Veiruvinum í fjárhúsi sínu. Til gamans má geta þess að hann og Eiður Ottó Guðlaugsson, kórfélagi, eru systkinabörn,“ segir Pálína. Veislan hefst kl. 20:30.

Daginn eftir, laugardaginn 22. október, verður brunað austur á Ingjaldsstaði í Þingeyjarsveit. „Um kaffileytið sækjum við fjárhús Sigurðar Atlasonar heim þar sem systkinin Sigurður og Elma Atlabörn, kórfélagi, bjóða okkur velkomin,“ og ítrekar Pálína að kaffileytið sé klukkan 15.

Eftir þá tónleika verður stefnan svo tekin í Brekkukot í Skagafjarðarsýslu og hafin upp raust

um klukkan 20:30. „Í Brekkukoti er það Gunnar Sigurðsson sem býður okkur velkomin til söngstundar í fjárhúsunum. Systur hans Aðalheiður og Kristín Sigurðardætur eru kórfélagar.“

Margrét Hrafnsdóttir, stjórnandi Veiranna.

Stjórnandi Veiranna er Margrét Hrafnsdóttir, sópransöngkona. Hún hefur lokið 8. stigi í söng hjá Sieglinde Kahmann frá Tónlistarskóla Reykjavíkur árið 1998 og samhliða því 8. stigi á píanó hjá Selmu Guðmundsdóttur. Margrét lauk söngkennara- og einsöngvaradiplómu frá Hochschule für Musik und Darstellende Kunst Stuttgart undir handleiðslu Michiko Takanashi, Robert Hiller og Franzisco Araiza og prófi frá ljóðadeild í sama skóla þar sem Cornelis Witthoeft var aðalkennari hennar.

Söngfélagar í Sönghópnum Veirunum eru:

Sópran
Birna Ásgeirsdóttir
Elma Atladóttir
Hafdís Ásgeirsdóttir
M. Aðalheiður Sigurðardóttir

Alt
Gerður Magnúsdóttir
Kristín Sigurðardóttir
Pálína Vagnsdóttir

Tenór
Jón Ívars
Sigurður Sigurgeirsson

Bassi
Eiður Ottó Guðlaugsson
Ólafur Geir Sverrisson
Ólafur Sveinsson
Samuel Lefever

„Það er von okkar sem stöndum að „Söngstund í fjárhúsum“ að sem flestir mæti og njóti. Hlökkum til að sjá ykkur,“ segir Pálína í lokin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir