„Spörkuðum aðeins í rassgatið á okkur,“ segir Axel Kára – Fjórði leikur Tindastóls og ÍR í kvöld

Axel Kára er mikill vinnuþjarkur á vellinum og fáir sem fara fram hjá honum.
Axel Kára er mikill vinnuþjarkur á vellinum og fáir sem fara fram hjá honum.

Þá er komið að fjórða leik Tindastóls og ÍR í undanúrslitum Domino´s deildar í körfubolta en leikið er í Síkinu á Sauðárkróki klukkan 19.15. Stólarnir leiða einvígið 2-1 og með sigri i kvöld tryggja þeir sig í úrslitin á móti annað hvort Haukum eða KR. Feykir hafði samband við Axel Kára fyrr í dag, sem segir leikinn verða skemmtilegan nái þeir að finna sömu grimmdina og á miðvikudaginn.

Axel var nýkominn úr vitjun á kúabúi er Feykir náði tali af honum rétt eftir hádegið í dag. Hafði hann verið að fangskoða tvær kýr og meðhöndla eina með júgurbólgu. „Það er ágætt að taka eina vitjun eftir hádegi á leikdegi,“ segir en hann vinnur hjá Dýralæknaþjónustunni í Glæsibæ.

„Mér líst nú bara mjög vel á leikinn ef við náum að halda sama tempói, sömu stemningunni og sömu grimmdinni og á miðvikudaginn. Þá ætti þetta að verða mjög skemmtilegur leikur og gaman að spila.“

Það var mikill munur á tveimur síðstu leikjum, hvað varnarleikurinn var mun betri sl. miðvikudag er Stólarnir náðu að knýja fram sigur á útivelli. Axel fór ekki varhluta af því þar sem hann átti hörkuleik. 
„Já, við spörkuðum aðeins í rassgatið á okkur eftir leikinn hér heima og svöruðum býsna vel fannst mér. Við erum nú bara mannlegir og oft gengur þetta í bylgjum, hvernig maður nær að koma stemmdur í leiki. En maður lærir af mistökum og þá ættum við að vita hvernig við eigum að koma í kvöld. Getum borið saman þessa tvo síðustu leiki.“

Áfram Tindastóll, segja börnin á Leikskólanum Ársölum. Myd af FB síðu skólans.

 Liðið hefur notið stuðning fjölmargra áhorfenda, ekki síst á útivelli og segir Axel hann vera afar mikilvægan og gefa liðinu auka kraft.
„Það erskemmtilegt þegar maður heyrir okkar fólk svara hinum stuðningsmönnunum. Það gefur manni smá nítrópúst. Svo er náttúrulega gaman þegar maður þekkir einhverja í stúkunni á útivelli.“

Hvern er erfiðast að dekka í ÍR liðinu?
„Það er erfiðast að dekka ÍR-inginn sem er að fara í sóknarfrákastið. Þeir eru alver gríðarlega öflugir í því, miklir baráttuhundar. Sem lið er það sennilega eitt það besta við það finnst mér, ef maður reynir að stíga út fyrir og horfa á það hlutlaust. Þeir reyna allir að fara i sóknarfráköstin og lausa bolta,“ segir Axel sem vonar eftir góðum stuðningi í kvöld.

Á Facebooksíðu körfuboltadeildar segir að grillborgararnir verði að sjálfssögðu á sínum stað. Forsala á miðum í sjoppunni og einnig verða stuðningsmannabolir seldir, stæðrir S-XXXL á 1.500,- kr frá 16.30 og eru stuðningsmenn hvattir til að nýta sér það.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir