Sproti ársins hjá ferðaþjónustunni á Norðurlandi er 1238: Battle of Iceland

1238: Battle of Iceland á Sauðárkróki hlaut viðurkenninguna Sproti ársins á uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi sem fram fór á Á Kaffi Rauðku á Siglufirði en viðurkenningin er veitt ungu fyrirtæki sem hefur skapað eftirtektarverða nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Á heimasíðu Markaðsstofu Norðurlands segir að loksins hafi komið að því að hægt væri að halda uppskeruhátíð að nýju, en engin var haldin árið 2020 vegna heimsfaraldurs.
Samkvæmt venju var fyrirtækjum veittar viðurkenningar fyrir sín störf. SBA Norðurleið varð fyrir valinu sem fyrirtæki ársins 2021. Þessa viðurkenningu fá fyrirtæki sem hafa skapað sér sterka stöðu á markaði og hafa unnið að uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun í ferðaþjónustu á Norðurlandi.
Viðurkenningu fyrir störf í þágu ferðaþjónustu hlaut Linda María Ásgeirsdóttir í Hrísey. Sú viðurkenning er veitt einstaklingi sem hefur haft góð áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi í heild sinni og hefur starfað beint eða óbeint fyrir ferðaþjónustu á svæðinu.
Í ár var ákveðið að bæta fjórðu viðurkenningunni við, Hvatningarverðlaun ársins 2021, og voru veitt Fairytale at Sea. Fyrirtækið var stofnað árið 2018 og býður upp á þjónustu sem byggir vel undir ímynd Norðurlands og er orðið þekkt meðal innlendra og erlendra ferðamanna fyrir einstaka upplifun.
En Sproti ársins kom í hlut 1238: Battle of Iceland sem stofnað var árið 2019. „Sýningin, og hennar frumlega og nýstárlega miðlun á sögu Sturlungaaldarinnar hefur fengið afar góðar móttökur frá opnun 2019 og viðurkenning sem þessi er kærkomin hvatning til að halda ótrauð áfram á þeirri vegferð sem við erum á,“ er haft eftir Áskeli Heiðari Ásgeirssyni, framkvæmdastjóra 1238, á Facebooksíðu fyrirtækisins.
Í greinargerð verðlaunanna kemur fram að fyrirtækið bjóði upp á frábæra aðstöðu fyrir bæði minni og stærri hópa. „Sögusetrið 1238 er gagnvirk sýning sem færir viðskiptavini nær sögulegum stóratburðum en hefðbundnar fræðslusýningar. Með hjálp nýjustu tækni í miðlun og sýndarveruleika er þeim boðið að taka þátt í átakamestu atburðum Íslandssögunnar og beinlínis stíga inn í sögu Sturlungaaldar. Fyrirtækið hefur sýnt mikinn metnað í stafrænni markaðssetningu og verið mjög sýnilegt á öllum helstu boðleiðum. Í fyrra þurfti fyrirtækið að aðlaga þá markaðssetningu í meiri mæli að Íslendingum og tókst það vel. Sýningin hefur fyrir vikið vakið mikla athygli innanlands en einnig á erlendum mörkuðum. Þetta starf ýtir undir uppbyggingu á öflugri ferðaþjónustu í Skagafirði allt árið og vekur athygli bæði á nærsvæði fyrirtækisins en einnig Norðurlandi öllu.“
Sjá nánar HÉR