Stál í stál í Síkinu en sigurinn var Stólanna

Þórsarar sækja að Flenard Whitfield í gær en kappinn gerði tíu stig og sigurstigin af vítalínunni þegar 0,2 sekúndur voru eftir. MYND: HJALTI ÁRNA
Þórsarar sækja að Flenard Whitfield í gær en kappinn gerði tíu stig og sigurstigin af vítalínunni þegar 0,2 sekúndur voru eftir. MYND: HJALTI ÁRNA

Eitt af toppliðum Dominos-deildarinnar í körfubolta, Þór Þorlákshöfn, mætti í Síkið í gærkvöldi og spilaði við lið Tindastóls sem hefur verið að rétta úr kútnum eftir strembinn vetur. Vanalega eru viðureignir þessara liða fyrir spennufíkla og það varð engin breytinig á því í gær því úrslitin réðust þegar 0,2 sekúndur voru eftir af leiknum. Þá tók Flenard Whitfield einu vítaskot sín í leiknum og tryggði Tindastólsmönnum sigurinn eins og að drekka vatn. Lokatölur 92-91.

Þórsarar voru án risans Drungilas sem var að taka út leikbann og það var tvísýnt með þátttöku Styrmis Snæs Þrastarsonar en hann byrjaði á bekknum en kom svo inn í leikinn og endaði leik með flesta framlagspunkta allra í Síkinu. Frábær leikmaður.

Leikurinn fór fjörlega af stað og það kom fljótlega í ljós að gestirnir þurftu lítið að leita inn í teiginn því þeir voru sjóðandi tjúllaðir fyrir utan 3ja stiga línuna. Stólarnir náðu engu að síður sjö stiga forystu, 24-17, eftir um sjö mínútna leik en gestirnir minnkuðu muninn í tvö stig, 27-25, áður en leikhlutinn var úti. Í öðrum leikhluta kom í ljós að Þórsarar voru einnig sjóðheitir á vítalínunni og þeir náðu fljótlega tíu stiga forystu því á meðan allar rakettur gestanna hittu í mark vafðist það fyrir heimamönnum að koma boltanum í körfuna. Þegar ein og hálf mínúta var eftir af öðrum leikhluta komust Þórsarar 13 stigum yfir, 39-52. Það má segja Stólunum til hróss að þeir fóru ekki að vorkenna sér heldur svöruðu með fimm stigum fram að hléi, öllum frá Jaka Brodnik, og fóru því nokkuð borubrattir inn í leikhléið. Staðan 44-52.

Það gat varla verið að lið Þórs gæti haldið áfram að hitta svona vel úr 3ja stiga skotum í síðari hálfleik og sú varð raunin. Þeir höfðu sett skotin niður í fyrri hálfleik þrátt fyrir að Stólarnir væru ofan í leikmönnunum en nú færðu leikmenn Tindastóls sig jafnvel enn nær og náðu að trufla gestina með betri árangri. Þórsarar fengu urmul af vítaskotum og enduðu reyndar á því að setja niður 24 af 25 vítaskotum sínum í leiknum – hvaða bull er það!?

Stólarnir söxuðu fljótt á forskot gestanna eftir hlé og Tomsick kom Stólunum yfir með þristi um miðjan þriðja leikhluta og liðin skiptust á um að hafa forystuna næstu mínútur. Það var allt stál í stál þegar fjórði leikhluti hófst, staðan 69-69. Fyrstu mínútur leikhlutans munaði aldrei meira en tveimur stigum á liðunum en þristur frá Pétri kom Stólunum fimm stigum yfir, 84-79, þegar rúmar fimm mínútur voru eftir. Nú hægðist heldur á stigaskorinu og leikur liðanna varð ómarkvissari. Stólarnir héldu þriggja til fimm stiga forystu næstu mínútur en Þórsarar eru ólseigir og Styrmir Snær minnkaði muninn í eitt stig, 88-87, og Larry Thomas, sem átti flottan leik, kom gestunum yfir þegar rúm mínúta var eftir. Tomsick svaraði með flotkörfu en Larry svaraði að bragði.

Stólarnir fengu boltann þegar um hálf mínúta var eftir af leiknum og þurftu að skora tvö stig til að taka stigin þrjú – og fá ekki á sig körfu í framhaldinu. Brotið var á Tomsick sem þýddi að Stólarnir gátu haldið boltanum til leiksloka. Þórsarar spiluðu góða vörn en Tomsick kom boltanum á Brodnik sem varð að fara í erfitt þriggja stiga skot, boltinn skoppaði af hringnum og þá náði Pétur frákastinu af hörku og féll með boltann í gólfið þar sem boltinn endaði laus, Flenard náði að lokum takinu á þeim appelsínugula og reyndi skot en brotið var á honum þegar 0,2 sekúndur voru eftir. Rest is history – eða hvíld er saga eins og Google þýðir það.

Stólarnir einir í sjötta sæti Dominos

Hreint frábær leikur og mikilvægur sigur Tindastóls sem eru nú, þegar fjórar umferðir eru eftir af deildarkeppninni, í sjötta sæti. Jaka Brodnik var bestur í annars jöfnu liði Tindastóls en hann var með 18 stig og átta fráköst, Anta Udras var stigahæstur með 19 stig og fjögur fráköst og Tomsick gerði 17 stig og átti tíu stoðsendingar. Allir leikmenn sem við sögu komu skiluðu sínu í hörkuleik og gerðu stórar körfur en Axel setti niður þessa þrjá þrista sem hann hefur verið með í áskrift að undanförnu og þá gerði Helgi Rafn sjö stig. Ef eitthvað má gagnrýna að loknum svona naglbít þá væri það helst hvað leikur Stólanna varð ómarkviss á lokamínútunum þegar liðið var komið í vænlega stöðu.

Larry Thomas var stigahæstur Þórsara en kappinn setti niður sex þrista í átta tilraunum og setti síðan tvær íleggjur á lokamínútunum og endaði því með 22 stig. Styrmur Snær var með 19 stig líkt og Emil Karel en Emil var eini leikmaður gestanna sem misnotaði víti – eitt stig í súginn sem hefði kannski tryggt framlengingu og hver veit hvað?

Næsti leikur Tindastóls er í Hafnarfirði á fimmtudag þar sem hungraðir Haukar bíða. Hafnfirðingarnir hafa nú unnið tvo leiki í röð og gæla við það að geta bjargað sér frá falli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir