„Stefnan sett á sigur og ekkert annað“

Jón Stefán. MYND: PF
Jón Stefán. MYND: PF

Á morgun, laugardag, verður síðasta umferðin í 2. deild karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu leikin. Tindastólsmenn fá lið Völsungs frá Húsavík í heimsókn á Sauðárkróksvöll og er mikið undir hjá báðum liðum. Tindastólsmenn þurfa að ná góðum úrslitum til að tryggja sæti sitt í 2. deild en ef úrslit leikja verða Húsvíkingum hagstæð eiga þeir séns á að tryggja sér sæti í Inkasso-deildinni. Feykir hafði samband við Jón Stefán Jónsson, framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar Tindastóls og einn af þjálfurum liðsins.

Hvernig leggst leikurinn gegn Völsungi í Tindastólsmenn?„Leikurinn leggst mjög vel í okkur Tindastólsmenn og er stefnan sett á sigur og ekkert annað. Sigur tryggir sæti okkar í deildinni og markmiðið því einfalt.“

Eru allir klárir í slaginn?„Flestir eru klárir í slaginn, einhver smávægileg eymsli hér og og þar. Hólmar Daði tæpur en gæti alveg náð þessum leik. Menn eru tilbúnir að leggja skrokkinn að veði þegar svona mikilvægur leikur er framundan.“ 

Nú var Stólunum spáð falli í 3. deild fyrir tímabilið en liðið er berjast fyrir sæti sínu í 2. deildinni í síðustu umferð. Eru menn sáttir með árangur sumarsins?„Sáttir og ekki [sáttir], auðvitað var liðinu ekki spáð góðu gengi en samt sem áður er helling spunnið í þennan hóp okkar. Jafnframt má samt alveg segja að það sé vel gert hjá strákunum og þeim sem hafa þjálfað þá að hafa liðið í þessarii stöðu m.v. það sem hefur gengið á. Fyrir sumarið hefðum við klárlega þegið það að vera í þeirri stöðu að vera með okkar örlög í eigin höndum fyrir lokaumferðina.“ 

Mikið hefur verið fjallað um leik Hugins og Völsungs sem fram átti að fara nú í vikunni í kjölfar þess að áfrýjunardómstóll KSÍ komst að þeirri umdeildu ákvörðun að ógilda leik liðanna frá því í ágúst vegna dómaramistaka og leikurinn skildi spilaður aftur á Seyðisfjarðarvelli. Leikinn átti að spila sl. miðvikudag en völlurinn á Seyðisfirði var talinn óleikhæfur. KSÍ ákvað að leikurinn skildi þá spilaður í Fellabæ og þangað mætti lið Völsungs og dómarar en leikmenn Hugins mættu á Seyðisfjarðarvöll eins og kveðið var á um í úrskurði áfrýjunardómstólsins. 

Völsungi dæmdur 3-0 sigur gegn liði Hugins

Samkvæmt reglum KSÍ telst það lið sem ekki mætir til leiks hafa tapað leiknum 3-0 en nú rífast menn um hvort liðið hafi ekki mætt til leiks. Í gær kvað KSÍ upp sinn úrskurð og telst Völsungur hafa unnið leikinn 3-0 og eru því aðeins tveimur stigum á eftir toppliðum 2. deildar fyrir síðustu umferðina. Það kæmi þó ekki á óvart að þessu dæmalausa klúðursmáli sé hvergi nærri lokið.

Feykir spurði Jón Stefán hvað honum þætti um niðurstöðu áfrýjunardómstóls KSÍ varðandi endurtekningu á leik Hugins og Völsungs. „Mér finnst að úrslitin eigi alltaf að ráðast á vellinum og klúðrið auðvitað fyrst og fremst tæknilegs eðlis. Jafnframt skil ég Völsunga og ekki síður Hugins-menn að vera ósáttir við allt tengt þessum leik. Hvað er rétt í þessu get ég hreinlega ekki dæmt um og vona að strákarnir í liðinu einbeiti sér einvörðungu að því að vinna Húsvíkinga á laugardaginn,“ sagði Jónsi og bætti við: „Leikurinn á laugardag er knattspyrnunni á Sauðárkróki rosalega mikilvægur og það er engin ný vísindi að stuðningur áhorfenda skiptir öllu máli. Ég vil hvetja fólk til að mæta á völlinn og styðja strákana til sigurs í leiknum.“

Leikur Tindastóls og Völsungs hefst kl. 14:00 á laugardag og er frítt á völlinn í boði Skagfirðingabúðar. Það er því ekkert annað í stöðunni en klæða sig vel í kuldanum og mæta með jákvæðnina og styðja Stólana til sigurs. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir