Stefnt að eflingu starfsstöðvar Íbúðalánasjóðs á Sauðárkróki

Eins og fram kom í aðsendri grein á Feyki.is í fyrradag, eftir þá Stefán Vagn Stefánsson, formann byggðaráðs Svf. Skagafjarðar, og Matthías Imsland, aðstoðarmann velferðarráðherra, hefur verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála skilað niður stöðum vinnu sinnar. Vonast greinarhöfundar til að hægt verði að efla starfsemi sjóðsins á Sauðárkróki og fjölga þar störfum.

Meðal tillagna verkefnastjórnarinnar er að Íbúðalánasjóði verði breytt varanlega og verkefnum hans skipt upp. Í grein Stefáns og Matthías er sérstaklega fjallað um starfsstöð sjóðsins á Sauðárkróki og að sú mikla reynsla og þekking sem þar er fyrir hendi sé grunnur sem byggja megi á til framtíðar.

Í samtali við Feyki í gærdag sagði Matthías að í framhaldi af vinnu starfshópsins yrði nú farið í þá vinnu að ákveða hvernig framtíð sjóðsins yrði háttað. Matthías vitnaði í niðurstöður verkefnastjórnarinnar og stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þar sem kveðið er á um að vernda skuli og efla störf á landsbyggðinni. „Það sem hefur líka komið fram er að Norðvesturkjördæmi, og alveg sérstaklega Sauðárkrókur, missti á síðasta kjörtímabili mikið af opinberum störfum sem fyrri ríkisstjórn flutti frá Skagafirði, sagði Matthías.

„Þarna erum við að tala um að þurfi að snúa þessari þróun við og frekar að byggja starfsstöðina upp og efla hana og mögulega fjölga störfum þarna,“ sagði Matthías og bætti við mikilvægt væri að áfram yrði gott samstarf milli stjórnvalda og sveitarstjórnar um málið. „Við erum að horfa til þess og vonast til að þarna verði hægt að fjölga störfum,“ sagði hann að lokum.

Fleiri fréttir