Stefnt að kosningu um sameiningu um áramót
Nú er ljóst að ekki tekst að ljúka viðræðum um sameiningu sveitarfélaganna fjögurra í Austur-Húnavatnssýslu sem staðið hafa yfir frá síðasta hausti fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor. Valgarður Hilmarsson, fulltrúi Blönduósbæjar í sameiningarnefnd sveitarfélaganna, segir í fréttum RUV í gær að fljótlega eftir að viðræður um sameiningu hófust hafi komið í ljós að að óraunhæft væri að ljúka þeim fyrir kosningar.
Valgarður segir að ráðgjafar frá fyrirtækinu Ráðríki hafi verið fengnir til aðstoðar. Verkefni þeirra sé að fá fram sjónarmið íbúa og taka saman áfangaskýrslu á næstu vikum. Í byrjun apríl sé stefnan að halda íbúafundi í öllum sveitarfélögunum en þá verði gert hlé fram yfir kosningar. Nýjar sveitarstjórnir muni svo taka ákvarðanir um hvort, og þá hvernig, haldið verði áfram en Valgarður telur allar líkur á áframhaldi viðræðnanna enda sé almennur vilji til þess.
Valgarður segist vonast til að kosið verði um sameiningu næsta vetur. „Það verður aldrei kosið fyrr en í fyrsta lagi um áramótin. Það er það sem er stefnt að, en er háð því að verðandi sveitarstjórnir kaupi hugmyndina,“ segir Valgarður Hilmarsson í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.