Stefnt að úthlutun lóða í Varmahlíð með haustinu

Varmahlíð
Varmahlíð

Mikil eftirspurn hefur verið eftir lóðum í Varmahlíð og margir hafa sótt um þær lóðir sem auglýstar hafa verið nýverið. Í ljósi þess áhuga hefur verið ákveðið að hraða deiluskipulagi og hönnun lóðar eins og hægt er.  Stefnt er að því að úthluta nýjum lóðum með haustinu. 

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitastjóri svf. Skagafjarðar, segir í samtali við Bændablaðið að það sé ánægjulegt að vita til þess að fólk hefur áhuga á því búa og byggja í Varmahlíð.

„Skagafjörður er eitt atvinnu­svæði, samgöngur eru góðar á milli þétt­býlisstaða og fólk býr þar sem það helst vill og ekur í sína vinnu ef hún er á öðru svæði en heimilið,“
segir Sigfús Ingi.

Um þessar mundir eru framkvæmdir við tvö hús hafnar og við þrjú önnur hús í bígerð en þeim var úthlutað nú nýlega.

Sigfús segir að unnið sé að deiliskipulagi við Birkimel í Varmahlíð, en þar stendur til að bjóða upp á um 30 nýjar lóðir. Gerir hann ráð fyrir að um tveir þriðju lóðanna verði undir einbýlishús og síðan verði það sem eftir stendur ætlað undir par- og raðhús.

„Deiliskipulagsvinna stendur yfir og ef allt gengur að óskum er stefnan sú að bjóða fyrstu lóðirnar út síðla hausts eða snemma vetrar þannig að fólk geti hafist handa við undirbúning framkvæmda sem fyrst,“ segir Sigfús Ingi í samtali við Bændablaðið.

/SMH 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir