Steintröllið í Hlöðnuvík í Fljótum féll í óveðrinu í síðustu viku

Steintröllið fallið og hefur brotnað í smátt.  Ekki kemur fram í Byggðasögu Skagafjarðar hversu hár hann hafi verið en Halldór Gunnar skýtur á að hann hafi verið 6-7 metrar. Mynd: Halldór Gunnar Hálfdánarson.
Steintröllið fallið og hefur brotnað í smátt. Ekki kemur fram í Byggðasögu Skagafjarðar hversu hár hann hafi verið en Halldór Gunnar skýtur á að hann hafi verið 6-7 metrar. Mynd: Halldór Gunnar Hálfdánarson.

„Fjaran hérna í Fljótum er frekar einsleit, en við sunnaverða Hlöðnuvík í landi Hrauna [í Fljótum] hefur steintröll staðið vaktina í mörghundruð ár og sett svip á umhverfið. Síðustu viku, líklega þriðjudaginn 28. september, féll þessi útvörður okkar í miklu brimi sem fylgdi fyrstu óveðurslægð haustsins,“ skrifar Halldór Gunnar Hálfdánarson á Molastöðum í Fljótum.

Halldór Gunnar setur inn tvær myndir með færslunni, önnur, sem hann tók á dögunum, og sýnir tröllið fallið en hin er af steindrangnum í fullri reisn sem Hjalti Pálsson tók 12. apríl 2015 og má finna í Byggðasögu Skagafjarðar, IX bindi. Þar segir að drangurinn hafi staðið norðaustan við Olnbogann en fyrir mannsaldri hafi hann verið uppi í grónu landi, þvílíkt hefur landbrotið verið á ekki lengri tíma.

Steindrangur þessi stóð i fjöruborði norðaustan
við Olnbogann. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar.

Steintröllið er svokallaður berggangur sem skilgreindur er sem sprungufyllingar á Vísindavefnum, það er að segja bergkvika sem þrýst hefur út í sprungur í bergi og storknað þar.

Mikið landbrot hefur átt sér stað í landi Hrauna og segir í Byggðasögunni m.a. að síðasta mannsaldur hafi sjávarkamburinn í Hraunakróki færst verulega upp í landið með þeim afleiðingum að Narfatjörnin er komin í tvennt og margar sjóbúðaminjar horfnar undir sjó og möl.

Steintröllið horfir austur á Hlöðnuvíkina.
Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar

 Minnst er á mikil óveður og brim í bókinni og m.a. frá 26.- 27. október 1934 en þá stíflaðist Hraunaósinn þar sem hann hafði verið vestur við Haganesborg frá því fyrir aldamótin. Braut hann sér síðan nýjan farveg gegnum mölina nokkru austan við Stakkgarðshólmann, austur undir Skeiðhólma og segir í Byggðasögunni að hann hafi orðið bæði breiður og djúpur en grynnti vatnið þá til muna svo flóðs og fjöru gætti í Vatninu síðan.

Eftirfarandi texta má finna í 9. bindi Byggðasögu Skagfirðinga bls. 441:
„Brim hefur ekki komið annað eins síðan 1894, eða fyrir 40 árum“, skrifaði Guðmundur Davíðsson í dagbók sína 28. október. „Þá gekk flóðbylgjan ennþá lengra á land en nú, bæði hér og á Siglufirði. Gjörði brimið þá mikinn usla hér á Hraunum, sérstaklega á svonefndum Vesturtanga, vestur úr varphólmanum. Svipti það upp stórum spildum af tanganum alveg niður í grjót og bar langt suður í vatn.“

Þann 31. október skrifaði Guðmundur ennfremur: „Við Einar fórum með bátinn vestur að Nýja Ós, settum hann og hvolfdum hjá vestasta staur á Skeiðhólmanum, en þar skammt fyrir vestan er Ósinn. Hann er nú ca 25 m breiður og talsvert djúpur; annars var eigi hægt að sjá í botn því að vatnið er kolmórautt í honum, máske af þaramori en vel má vera að hann sé enn að grafa sig niður. Vatnið hefir minnkað ákaflega mikið og er Selsteinninn á þurru landi og austari Selsteinninn stendur mikið uppúr og eins Móri í Hafnarfirðinum. Ósinn liggur inn í lónið austantil og síðan meðfram Austurtanganum og suður og austur með honum og austanvert við Grunnhólmann sem nú er á þurru. Á Skeiðhólmann hefir brimið og mölin gengið suður undir símastaura að vestanverðu og víða eru göturnar horfnar undir möl. Hefir brimið brotið grasveginn upp á löngum parti og eru þar nú háar jarðvegshrúgur.“ 37)

Vorið 1999 stíflaðist ósinn enn einu sinni vegna brims sem bar í ósinn. Ís var ennþá á vatninu og hleypt hafði verið úr Stífluvatninu til hreinsunar svo að vatnsflaumur Miklavatns náði fram á Holtsmýrar. Loks kom að því að vatnið sprengdi sig fram á nýjum stað vestur undir Borginni, en ósinn hafði fram að því verið austan við Stakkgarðshólmann, austur undir Skeiðhólma.

Hlöðnuvík, eldra nafn Huðnuvík, gengur inn í landið milli Brekhóla og Ódrykkjutjarnarnefs. Hún er breið og stærsta víkin sem gengur inn í Hraunaland. Fjaran í henni er breið, en stórgrýtt eins og víðar, einkum í utanverðri víkinni, undir Hlöðnuvíkurskriðum sem ná út að Ódrykkjutjarnarnefi. Þar hefur á síðustu áratugum brotið af mikið land svo nú eru tuga metra háir hrunbakkar að fjörunni. Upp af víkinni er dálítil hvilft, er einnig heitir Hlöðnuvík. Er þar ágætt land, grasgefið og rakt af lækjaveitum, er koma undan brekkunni. Utan til í miðri vík gengur fram hár rani úr hólunum ofan við víkina og heitir hann Hlöðnuvíkur höfði. Um og eftir miðja 19. öld voru beitarhús í víkinni til að nýta þarabeitina, kölluð Hlöðnuvíkurhús. Um 1910 sást vel fyrir tóftum þó byrjað væri að brjóta af þeim. Nú, hundrað árum síðar, eru þær með öllu horfnar vegna ágangs sjávar. 39)

Fleiri fréttir