Stelpur geta allt
Þann 13. október síðastliðinn bauð Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar öllum stúlkum í 7. bekk grunnskólanna í Skagafirði á námskeið sem nefnist „Stelpur geta allt“ og var námskeiðið ætlað til eflingar sjálfsmyndar stúlkna. Er þetta annað árið sem klúbburinn stendur fyrir slíku námskeiði en það fyrsta var haldið í október 2017 og mæltist vel fyrir.
Eitt af markmiðum Soroptimista er að styrkja og efla konur og stúlkur í okkar nágrenni og víðar og því valdi klúbburinn í Skagafirði að bjóða upp á þetta námskeið. Leiðbeinandi á námskeiðinu var Kristín Tómasdóttir sem hefur í nokkur ár boðið upp á námskeið og fyrirlestra fyrir stúlkur á unglingsaldri þar sem að hún kennir þeim að þekkja og styrkja sjálfsmynd sína. Kristín hefur skrifað 5 bækur um þetta málefni og byggja námskeiðin á þeim bókum. Alls tóku 15 stúlkur þátt á námskeiðinu að þessu sinni sem haldið var í Varmahlíðarskóla. Meðal þess sem tekið er fyrir er að þekkja hugtakið sjálfsmynd, að þekkja eigin sjálfsmynd og að kynnast leiðum til að hafa jákvæð áhrif á eigin sjálfsmynd. Eftir að fræðslunni til stúlknanna lauk var foreldrum þeirra boðið til fundar þar sem að þau fengu góð ráð til að fylgja námskeiðinu eftir heima, til að efla og styrkja dætur sínar. Soroptimistasystur sáu um að sækja stúlkurnar og aka þeim í Varmahlíð ásamt því að sjá um veitingar og afþreyingu - á milli námskeiðshluta. Það voru því sáttar konur á öllum aldri sem héldu heim í lok dags.
Soroptimistasystur í Skagafirði vonast til að geta boðið uppá samskonar námskeið aftur á næsta ári og að verkefnið komi til með að festa sig í sessi. Þeim þykir mjög áhugavert ef að hægt væri að bjóða upp á sambærilegt námskeið fyrir drengi og væru tilbúnar til að vinna að slíku í samstarfi við aðra klúbba í Skagafirði ef áhugi er fyrir hendi.
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.