Stelpurnar með seiglusigur gegn Vestra

Stólastúlkur fagna í leikslok. SKJÁSKOT
Stólastúlkur fagna í leikslok. SKJÁSKOT

Stólastúlkur brunuðu á Ísafjörð í gær þar sem þær léku við lið Vestra í 1. deild kvenna. Lið Ísfirðinga hafði aðeins hlotið tvö stig í leikjum vetrarins en lið Tindastóls hafði unnið fimm leiki af14. Raunar höfðu þær vestfirsku unnið annan leikinn í svokölluðum tvíhöfða hér á Króknum sl. haust en í kjölfar kófsins var leikjum í 1. deild kvenna fækkað og úrslitin í leiknum sem Vestri vann strikuð út. Þær voru því æstar í að næla í glötuðu stigin tvö en frábær tíu mínútna kafli Tindastóls seint í leiknum skóp fínan sigur gestanna. Lokatölur 64–73.

Leikurinn var jafna og spennandi í fyrri hálfleik en lið Tindastóls var skrefi á undan í fyrsta leikhluta og var yfir 10–13 að honum loknum. Olivia Crawford spýtti í lófana í öðrum leikhluta en hún var allt í öllu í leik Vestra, endaði með 40 stig. Inga Sólveig og Marín Lind var aðsópsmiklar í liði Tindastóls í fyrri hálfleik en staðan í hálfleik var 29-24 heimastúlkum í vil.

Það var mikið flautað í leiknum og villurnar hrönnuðust upp á heimastúlkur sem pressuðu ótt og títt. Þrjár stúlkur í liði Vestra voru komnar með fjórar villur eftir 25 mínútna leik en þá hafði lið Vestra náð tíu stiga forystu, 43-33, og staðan erfið fyrir gestina sem snéru nú bökum saman og hófu að saxa á forskot heimastúlkna. Það var þó skellur þegar Inga Sólveig fékk sínar fjórðu og fimmtu villur á örskömmum tíma þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Þá steig Eva Wium upp en hún hafði lítið skorað fram að því fyrir Stólastúlkur.

Lið Tindastóls jafnaði leikinn, 52-52, áður en lokaátökin hófust og fyrstu tvær mínútur fjórða leikhluta gekk hvorki né rak hjá báðum liðum. Hafdís braut ísinn fyrir Stólana, setti niður skot og fékk víti að auki sem hún setti niður. Í kjölfarið fylgdu þristar frá Evu, Berglindi og Marín og nokkur stig til viðbótar því Tindastóll náði 16-0 kafla og kláraði nánast leikinn. Staðan 52–68. Fyrsta stig Vestra kom eftir rúmlega fimm mínútna leik í loka leikhlutanum og það reyndist ekki ýkja flókið fyrir lið Tindastóls að sigla sigrinum í höfn.

Góður sigur og það ekki síst þar sem í lið Tindastóls vantaði nokkra leikmenn, þ.m.t. Evu Rún og Karenu Lind. Marín Lind átti frábæran leik og endaði með 25 stig, Eva Wium hafði hægt um sig framan af en endaði með 17 stig og þá átti Inga Sólveig góðan leik, gerði 11 stig og hirti fjöldann af fráköstum, en var örugglega ósátt við að fá fimm villur þetta snemma leiks.

Stólastúlkur eiga eftir tvo leiki í deildarkeppninni, gegn liði Ármanns hér heima á þriðjudag en síðasti leikurinn er gegn Fjölni b þann 8. mars fyrir sunnan. Lið Tindastóls er nú í fjórða til sjötta sæti í deildinni. Ef blaðamaður skilur rétt þá er átta liða úrslitakeppni í 1. deildinni og því slatti af körfubolta sem enn er eftir að spila.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir