Stjórnmál eru ekki fótbolti
Það hefur verið sagt um stuðningsmenn liða í enska boltanum að það sé líklegra að þeir skipti um maka á lífsleiðinni en að þeir skipti um lið. Þeir sem halda með Liverpool halda tryggð við Liverpool, sama á hverju gengur. Sama gildir um stuðningsmenn Man Utd., Arsenal og fleiri liða.
Það er hins vegar annað upp á teningnum í stjórnmálum. Fólk er óhrætt við að breyta til og kjósa aðra flokka. Þannig á það líka að vera. Flokkarnir eru til fyrir fólkið, en ekki öfugt. Nú er komið að kosningum til sveitarstjórna og margir farnir að velta fyrir sér hverjum sé best treystandi fyrir stjórn sveitarfélagsins næstu fjögur árin. Framboðslistarnir liggja fyrir og flestir renna augum yfir þrjá efstu á hverjum lista og spyrja sig þessara spurninga: Get ég treyst þessari manneskju? Er hún líkleg til að vera leiðtogi og drífa fólk áfram? Er þetta framkvæmdamanneskja eða vill hún kannski frekar nota kraftana í þras? Er hún líkleg til að vera góð í samvinnu, til að vinna fyrir okkur kjósendur að góðum málum? Í raun eru þetta sömu spurningar og eigandi fyrirtækis spyr sig þegar hann ræður framkvæmdastjóra, eða þegar valið er í stjórn fyrirtækis.
Hvaða manneskjur munu færa okkur áfram og stuðla að vexti í sveitarfélaginu? Til hverra er hægt að leita þegar vandamál koma upp?
Kosningar til sveitarstjórna snúast um fólk en ekki flokka. Stefnuskrár flokkana eru keimlíkar. Spurningin er hvaða fólki við treystum til góðra verka. Í kosningunum er ekki persónukjör heldur setja kjósendur x við einn framboðslista. Þess vegna þurfa þeir að fara vel yfir lista flokkanna og spyrja sig spurninganna hér að ofan fyrir frambjóðendur listanna.
Stjórnmál eru ekki fótbolti. Þú styður alltaf gamla liðið þitt í enska boltanum, en í kosningum kýst þú þá sem þú treystir best til að stjórna næstu fjögur árin.
Kristján Bjarni Halldórsson
Stjórnmálaspekúlant
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.