Stofutónleikar Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi
Sunnudaginn 30. júlí klukkan 15:00 heldur Jazztríó Sigurdísar Söndru Tryggvadóttur stofutónleika í Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi. Tríóið leikur tónsmíðar og útsetningar eftir Sigurdísi í bland við annað efni. Á efnisskránni eru meðal annars lög samin við ljóð eftir Jónas Tryggvason frá Finnstungu.
Sigurdís stundaði nám við Tónlistarskóla Austur-Húnavatnssýslu. Hún útskrifaðist af listnámsbraut frá Menntaskólanum á Akureyri og er með framhaldspróf í klassískum píanóleik frá Tónlistarskólanum á Akureyri. Síðastliðið vor útskrifaðist hún úr Tónlistarskóla FÍH með burtfararpróf í rytmískum píanóleik og kennarapróf. Í haust hefur Sigurdís háskólanám í jazzpíanóleik við Tónlistarskólann í Odense í Danmörku.
Með Sigurdísi spila Ævar Örn Sigurðsson á kontrabassa og Skúli Gíslason á trommur, báðir útskrifaðir frá Tónlistarskóla FÍH og virkir þátttakendur í tónlistarsenunni á Íslandi. Aðgangseyrir safnsins gildir og eftir tónleikana verður gestum boðið upp á kaffi og tilheyrandi.
/Fréttatilkynning