Stólarnir frábærir í 25 mínútur.

Topplið KR sótti í gærkvöld heim lið Tindastóls sem vermdi þriðja sæti deildarinnar. KR án taps í deildinni, en Stólarnir taplausir á heimavelli. Gestirnir byrjuðu inn á með Jason, Fannar, Jakob, Jón Arnór og Helga. Heimamenn tefldu fram í byrjun þeim Darrell, Svavari, Ísaki, Allan og svo fékk fyrirliðinn Helgi Rafn að byrja.

Liðin byrjuðu leikinn rólega sóknarlega, allavega var hittnin nokkuð slök í upphafi leiks og þegar fyrsti leikhlutinn var hálfnaður stóð taflan í 6 - 6.  Síðan fór hittnin að skána og í lok fjórðungsins munaði tveimur stigum heimamönnum í hag, 18 - 16.  Stólarnir beittu framan af maður á mann vörn og gekk hún vel og náðu þá sex stiga forskoti 13 - 7 sem þvingaði Benna KR þjálfara til að taka leikhlé. Eftir hléið breyttu Stólarnir í svæðisvörn sem hleypti skyttum KRinga í gang og á skömmum tíma komu þrír þristar í röð frá þeim. Þristur frá Allan Fall tryggði tveggja stiga forskot að loknum fyrsta fjórðungi eins og áður segir. Helgi Rafn fór mikinn í skorinu fyrir Tindastóll og var kominn með átta stig. Jakob var kominn með 6 stig fyrir gestina.

Stólarnir hófu annan leikhluta ágætlega og náðu aftur smá forskoti, en KR kom svo til baka og náði að jafna í stöðunni 26 - 26.  Þá náðu heimamenn góðum spretti og flest virtist ganga upp hjá þeim og til að mynda setti Svavar ævintýralegan þrist af færi sem Kiddi Gun hefði verið stoltur af, en hann var þekktur fyrir að skjóta stundum rétt kominn yfir miðju. Tindastólsmenn skoruðu 11 - 0 á gestina og byggðu upp gott forskot fyrir hálfleikinn. Stólarnir leiddu svo með tíu stigum í pásunni á meðan sóknarleikur KRinga var á köflum slakur, en varnarleikur beggja liða var öflugur. Staðan 40 - 30 í hálfleik og heimamenn gátu verið bjartsýnir fyrir seinni hálfleikinn.

Stólarnir héldu svipuðu forskoti framan af þriðja leikhlutanum og eftir tæpar fimm mínútur var staðan 52 - 45. Það voru þó kominn greinileg vandræðamerki á leik liðsins því þeir höfðu mikið fyrir hverri körfu og leikurinn var nokkuð harður og dómarnir leyfðu töluvert.  KR náði svo forystunni í stöðunni 53 - 54, mest fyrir stórleik Jóns Arnórs, en hann skoraði 12 stig í leikhlutanum. Næstu mínúturnar var leikurinn í járnum, en þristur frá Jóni Arnóri tryggði KR tveggja stiga forskot og einn leikhluti eftir. Staðan 60 - 62 og mikil spenna enn í leiknum.

Ef heimamenn hafi gert sér vonir um að hrella KRinga áfram þá hvarf sú von á fyrstu mínútum fjórða leikhluta. Stólarnir skoruðu ekki stig fyrstu fimm mínútur leikhlutans á meðan KR kláraði leikinn með 21 stigi í röð. Staðan breyttist úr 60 - 62 í 60 - 83.  Ekki bætti úr skák að Svavar fékk tvær tæknivillur og þar með útilokun frá leiknum. Allan Fall náði að brjóta ísinn fyrir heimamenn með tveimur vítum, en leikur Stólanna skánaði lítið og KR lét þetta forskot ekki frá sér.  Nýttu bæði liðin síðustu mínúturnar til að gefa minni spámönnum tækifæri, þó ekki séu þeir margir hjá KR.  Lokatölur urðu svo 70 - 96 í leik sem lengi vel leit út fyrir að verða spennandi, en Stólarnir sprungu á limminu að þessu sinni og KR innbyrti enn einn sigurinn og eru greinilega með besta liðið í dag.

Hjá Tindastóli var liðsheildin í fyrirrúmi lengst af, en Sören og Flake voru þó fremstir. Einnig átti Allan góða spretti og Helgi Rafn var öflugur í fyrri hálfleik. Hjá KR var Jón Arnór yfirburðamaður eftir rólegan fyrri hálfleik, en hann endaði með 30 stig. Jakob var sprækur og Jason Dourisseau átti nokkrar fallegar körfur.

Stigaskor Tindastóls: Fall 17, Flake 13, Flæng 12, Helgi Rafn 10, Svavar 9, Sigurður, Hreinn og Halldór 3 stig hver.

KR: Jón Arnór 30, Dourisseau 16, Jakob 15, Helgi 13, Baldur 9, Ólafur 6, Fannar, Skarphéðinn og Pálmi 2 stig hver og loks Ellert með 1 stig.

Dómarar leiksins voru þeir Rögnvaldur Hreiðarsson og Einar Þór Skarphéðinsson. Nokkurt misræmi var á köflum í dómgæslunni, þeir leyfðu harðan leik lengst af en svo þegar úrslitin voru ráðin var dæmt á öll smábrot. Þetta réð þó ekki úrslitum í kvöld.

Nokkrar tölur úr leiknum: 6-6, 13-7, 18-16, - 24-20, 28-26, 37-26, 40-30, -  44-38, 52-45, 56-56, 60-62, - 60-71, 60-83, 67-90, 70-96.

Heimild: Tindastoll.is

Fleiri fréttir