Stólarnir mæta Hvíta riddaranum í úrslitakeppninni

Hornspyrna að marki gestanna í dag. Ekki sú eina. MYND: ÓAB
Hornspyrna að marki gestanna í dag. Ekki sú eina. MYND: ÓAB

Síðustu leikirnir í B-riðli 4. deildar fóru fram í dag og fékk Tindastóll þunnkskipað lið Stokkseyrar í heimsókn á Krókinn. Leikurinn fór nánast eingöngu fram á vallarhelmingi gestanna og það má undrum sæta að Stólarnir hafi ekki skorað tíu fimmtán mörk. Þeir létu fimm duga en maður leiksins var án efa hinn 39 ára gamli Hlynur Kárason í marki gestanna sem varði flest sem á markið kom og var alveg búinn á því í leikslok.

Það var rigning og vindur og þjálfaðir piltar á Sauðárkróksvelli og hvergi skjól að fá... nema auðvitað í nýklæddri stúkunni sem áhorfendur voru þakklátir fyrir. Tindastólsmenn tóku völdin strax í byrjun en gestirnir hentu í hálfgerða handboltavörn við vítateiginn. Hlynur markvörður, sem hóf ferilinn með Blikum í byrjun aldarinnar, kunni greinilega að standa í marki og varði hvað eftir annað frá heimamönnum úr dauðafærum. Jónas Aron braut þó ísinn á 31. mínútu og þremur mínútum síðar bætti Paolo Gratton við öðru markinu og staðan 2-0 í hálfleik.

Áfram vörðust gestirnir í síðari hálfleik og komust varla yfir miðju fyrr en allt í einu. Þá slapp framherji þeirra einn í gegn eftir langa sendingu, Einar Ísfjörð ákvað að æða út úr vítateignum sínum og vinna boltann en dómarinn taldi hann hafa notað hendi og sýndi honum því rauða spjaldið. Inn á völlinn rölti Anton Helgi, varamarkvörður í þessum leik, og hann þurfti að taka á honum stóra sínum til að verja aukaspyrnuna sem fylgdi í kjölfar rauða spjaldsins. Einum færri tóku Stólarnir þó öll völd á vellinum á ný og það virtist nánast skárra að hafa færri leikmenn á vellinum til að flækja ekki málin. Gestirnir voru að vísu orðnir hálf þreytulegir enda einhverjir þeirra komnir af léttasta skeiði. Það kom því ekki á óvart þegar Eysteinn Bessi skilaði boltanum í tvígang í markið af á 73. og 75. mínútu, fyrst eftir að hafa sloppið einn inn á teig og renndi boltanum framhjá markverðinum og svo fylgdi hann vel á eftir á fjærstöng. Það var síðan Jónas Aron sem gerði annað mark sitt á 86. mínútu og gulltryggði 5-0 sigur Tindastóls.

Það brá oft fyrir fínu spili hjá heimamönnum sem voru með boltann mest allan tímann og í raun óskiljanlegt að liðið hafi ekki skorað miklu fleiri mörk.

Sem fyrr segir þá var þetta síðasti leikur liðsins í B-riðli 4. deildar og nú tekur úrslitakeppnin við. Stólarnir þurfa ekki að taka þátt í undankeppninni heldur fara beina leið í átta liða úrslitin þar sem þeir mæta Hvíta riddaranum sem tapaði ekki leik í A-riðli 4. deildar í sumar, gerði tvö jafntefli. Fyrri leikur liðanna verður á Króknum laugardaginn 3. september.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir