Stólarnir mæta KR í Powerade-bikarnum

Nú í hádeginu var dregið í undanúrslitum í Powerade-bikarkeppni KKÍ. KR-ingar voru svo óheppnir að dragast á móti spútnikliði Tindastóls en fengu þó heimaleik í DHL-höllinni í Vesturbænum. Í hinni viðureigninni verða það Skallagrímsmenn sem taka á móti Stjörnunni. Leikið verður 1. og 2. febrúar næstkomandi og ekki er að efa að stuðningsmenn Tindastóls muni fjölmenna á leik sinna manna.

Það voru Júlíus Jóhannsson og Jóhannes E. Levy sem voru spariklæddir fulltrúar Tindastóls við dráttinn í dag en höfðu ekki erindi sem erfiði, frekar en Sverrir Bergmann síðast,  við að  redda Stólunum heimaleik.

Að öllu gamni slepptu þá ætti að verða um hörkuleik að ræða á milli toppliðanna því bæði hafa þau spilað glimrandi körfubolta. KR-ingar hafa enn ekki tapað leik í vetur þó reyndar Tindastólsmenn vonist til að breyting verði á næsta fimmtudagskvöld þegar liðin mætast í Síkinu á Króknum í Dominos-deildinni.

Skagfirðingar sunnan heiða hafa alltaf verið duglegir að sækja leiki Tindastóls á höfuðborgarsvæðinu og má reikna með að þeir flykkist í DHL-höllina og nokkuð víst að góður hópur skjótist suður úr Skagafirðinum.

Svo má ekki gleyma því að Skagfirðingar hafa lánað KR-ingum nokkra spræka Tindastólsmenn í gegnum tíðina, bæði til frákasta og félagsstarfs í Vesturbænum. Má þar nefna menn á borð við Palla Kolbeins, Gústa Kára, Hinna Gunn, Ingvar Ormars, Atla Sveins, Arnar Kára, Björgvin Reynis og að sjálfsögðu Helgu Einars.

Fleiri fréttir