Stólarnir misstu flugið og Haukarnir gripu bráðina

Pétur lét ekki fjórar villur duga í gær og skellti sér á þá fimmtu en of snemma fyrir Stólana. MYND: DAVÍÐ MÁR
Pétur lét ekki fjórar villur duga í gær og skellti sér á þá fimmtu en of snemma fyrir Stólana. MYND: DAVÍÐ MÁR

Lið Hauka er ekki í sérstöku uppáhaldi hjá stuðningsmönnum Tindastóls eftir tvöfaldan sigur í gær. Fyrst féll kærumálið Haukum í hag og þeim dæmdur sigur í leik liðanna í VÍS bikarnum og í gærkvöld náðu þeir að vinna Stólana í leik liðanna í Subway-deildinni með mögnuðum viðsnúning í fjórða leikhluta. Lengi vel leit allt út fyrir öruggan sigur Stólanna en þeir köstuðu sigrinum frá sér á ögurstundu. Lokatölur 80-75.

Flensa setti strik í reikninginn hjá Stólunum sem léku án Keyshawn Woods. Leikur Tindastóls í fyrri hálfleik var stórfínn. Ekki munaði miklu á liðunum í fyrsta leikhluta en Stólarnir þó skrefinu á undan og staðan 19-21 að honum loknum. Varnarleikur Hauka var ekki góður í öðrum leikhluta og Stólarnir gengu á lagið og keyrðu yfir kærulausa (!) heimamenn. Um miðjan leikhlutann var staðan orðin 22-35. Axel Kára setti niður þrjá þrista á þessum kafla en Tai átti lokaorðið fyrir Stólana, setti niður stökkskot og kom muninum í 18 stig. Hilmar Hennings lagaði stöðuna fyrir Hauka um leið og fyrri hálfleikur kláraðist og staðan 33-48 í hálfleik.

Haukar börðu í brestina í leikhléi og mættu baráttuglaðir til leiks í síðari hálfleik. Drungilas setti reyndar niður þrist í blábyrjun þriðja leikhluta og munurinn aftur 18 stig. Stuttu síðar fékk Arnar sína fjórðu villu sem var áhyggjuefni þar sem Key var ekki til staðar. Stólarnir svöruðu áhlaupum Hafnfirðinga framan af en upp úr miðjum leikhlutanum náðu Haukar 12-2 kafla og staðan breyttist úr 41-57 í 53-59 og leikurinn orðinn æsispennandi. Arnar og Raggi sáu til þess að Stólarnir voru tíu stigum yfir fyrir lokafjórðunginn. Staðan 55-65.

Stólum gekk illa að eiga við vörn heimamanna í upphafi fjórða leikhluta og í stöðunni 64-68 urðu Stólarnir fyrir áfalli. Þá fékk Pétur fjórðu villuna á sig fyrir brot í sókn og fylgdi því eftir með tuði sem gaf dómurum leiksins tilefni til að dæmi tæknivíti á kappann. Pétur því kominn með fimm villur og þarna átti hann að vita betur. Haukarnir voru nú komnir með blóð á tennurnar og bullandi sjálfstraust. Þeir settu skotin sín niður á meðan Stólunum voru mislagðar hendur og heimamenn sigldu heim sigrinum með því að vinna fjórða leikhluta 25-10,.

Taiwo Badmus endaði stigahæstur Stólanna með 21 stig, Arnar var með 13 og Drungilas 12. Þá settu Zoran og Axel níu stig á töfluna. Pétur var aðeins með fimm stig en kappinn var frákastahæstur með níu gripin og hann skilaði einnig sex stoðsendingum. Haukaliðið er sterkt þó ekki hafi það kannski sömu breidd og lið Tindastóls. Þar var Davis Jr. stigahæstur með 21 stig, Giga var með 20, Mortensen 16 og Hilmar Hennings 14. Þá var Skagfirðingurinn Breki Gylfason frændum sínum erfiður en hann barðist eins og ljón.

Stólarnir fengu dæmdar á sig 26 villur í gærkvöldi en Haukarnir 15. Fyrir vikið fengu Haukar 32 víti og skoruðu 25 stig úr þeim á meðan Stólarnir settu niður níu í 13 vítaskotum. Haukarnir tóku örlítið fleiri fráköst, 44 gegn 40 Stólanna. Næstkomandi fimmtudag eiga Stólarnir heimaleik en þá kemur lið Þórs í Þorlákshöfn í heimsókn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir