Stólastúlkur börðust allt til loka en KR vann

Jayla Johnson gerði 37 stig fyrir lið Tindastóls í gær en það dugði ekki til. MYND: DAVÍÐ MÁR
Jayla Johnson gerði 37 stig fyrir lið Tindastóls í gær en það dugði ekki til. MYND: DAVÍÐ MÁR

Það var spilað í 1. deild kvenna í körfunni í gærkvöldi en þá fengu Stólastúlkur lið KR í heimsókn í Síkið. Vesturbæingar eru með eitt af betri liðum deildarinnar í vetur þó liðið virðist ekki ná að berjast um eitt af tveimur efstu sætum deildarinnar þar sem Stjarnan er í sérflokki og lið Snæfells og Þórs Akureyri berjast um annað sætið. Leikurinn í gær varð kannski aldrei verulega spennandi því gestirnir voru sterkari en heimastúlkur voru þó aldrei langt undan og veittu liði KR harða keppni. Lokatölur 64-72.

Lítið var skorað í fyrsta fjórðungi og varnarleikur beggja liða sterkur. Lið Tindastóls komst yfir, 10-7, en næstu átta stig voru gestanna en þær leiddur síðan, 12-15, að leikhlutanum loknum. Jayla og Emese höfðu þá gert allar körfur Tindastólsliðsins. KR náði heljartökum á leiknum á fyrstu fjórum mínútum annars leikhluta þegar Vesturbæingar náðu 2-18 kafla og staðan 14-33. Stólastúlkur gáfust ekkert upp og náðu fljótlega að minnka bilið í tólf stig, 23-35, og þegar 40 sekúndur voru til leikhlés gerði Eva Rún fyrstu „íslensku“ stig Stólastúlkna og minnkaði muninn í tíu stig. Staðan var 31-43 í hálfleik.

Inga Sólveig og Eva bættu við stigum í þriðja leikhluta og lið Tindastóls hélt sér inni í leiknum, munurinn yfirleitt um tíu stig en enn skildu tólf stig liðin að þegar fjórði leikhluti hófst. Jayla Johnson minnkaði bilið í tíu stig, 51-61, snemma í leikhlutanum með eina þristi Tindastóls í leiknum. Emese Vida bætti þremur stigum á töfluna skömmu síðar (karfa og víti) og KR þá aðeins með sjö stiga forystu. Stólastúlkur hefðu getað minnkað muninn frekar en allt kom fyrir ekki, gestirnir bjuggu einfaldlega yfir meiri breidd og unnu á endanum sanngjarnan sigur. Það var jákvætt að heimastúlkur höfðu betur í síðari hálfleik, 33-29, en annar leikhluti reyndist dýrkeyptur þannig að það dugði ekki til.

Aðeins fjórar stúlkur komust á blað í stigaskori hjá Tindastólsliðinu í gær á meðan níu KR-ingar skoruðu. Jayla var með 37 stig og átta fráköst, frákastamaskínan Emese náði „aðeins“ átta fráköstum í gær en gerði 17 stig. Eva Rún gerði fjögur stig en tók 14 fráköst, þrátt fyrir að búa ekki að mörgum sentimetrum, og þá gerði Inga Sólveg sex stig og tók sex fráköst. Violet Morrow gerði 27 stig fyrir KR og tók ellefu fráköst og Fanney Ragnarsdóttir gerði 14 stig og tók níu varnarfráköst.

Það háir Tindastólsliðinu að það er hreinlega engin skytta í liðinu. Jayla var sú eina sem reyndi meira en tvo skot utan 3ja stiga línunnar, tók tíu skot og setti eitt niður. Á meðan Stólastúlkur fengu þrjú stig á töfluna fyrir sín 3ja stiga skot fékk lið KR 27 stig utan línunnar. Það munar aðeins um það.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir