Stólastúlkur hársbreidd frá sigri í Hafnarfirði

Hugrún á fullri ferð. Hún gerði mark Stólastúlkna í gær en þessi mynd er frá leik Tindastóls og Augnabliks í síðustu viku. MYND: ÓAB
Hugrún á fullri ferð. Hún gerði mark Stólastúlkna í gær en þessi mynd er frá leik Tindastóls og Augnabliks í síðustu viku. MYND: ÓAB

Lið FH og Tindastóls mættust í Kaplakrika í Hafnarfirði í gærkvöldi í toppleik Lengjudeildarinnar. Bæði lið hafa verið sterk varnarlega og höfðu fyrir leikinn aðeins fengið á sig fjögur mörk og það má því segja að ekki hafi komið sérstaklega á óvart að lítið var skorað í leiknum. Lið Tindastóls komst yfir snemma í leiknum en heimastúlkur náðu að jafna um tíu mínútum fyrir leikslok og liðin deildu því stigunum. Lokatölur 1-1.

Það var Hugrún Páls sem kom Stólastúlkum yfir á 23. mínútu. Eftir að hafa fengið sendingu frá Murr náði hún að stinga sér á milli varnarmanna FH og inn á vítateig þar sem hún afgreiddi boltann snyrtilega í mark heimastúlkna. Skömmu síðar var Hugrún nálægt því að bæta við marki en Fanney í marki FH varði skalla hennar frábærlega. Bæði lið fengu sénsa fram að hléi en ekki tókst að koma boltanum í mörkin.

FH-liðið sótti stíft í síðari hálfleik og gestunum gekk illa að halda í boltann. Vörnin, með Bryndísi Rut í ham, var þó ekkert á því að gefa eitt eða neitt og þegar FH-ingar komust í færi var Amber fyrir aftan og hirti nánast allt sem á markið kom. Jöfnunarmark FH kom á 84. mínútu og var slysalegt. Þá átti Telma Hjaltalín Þrastardóttir slakt skot en boltinn hrökk af varnarmanni Stólanna og Amber komin af stað í hina áttina. Bæði lið hefðu getað stolið öllum stigunum á lokakaflanum en allt kom fyrir ekki.

Mjög sáttur með baráttuna og liðsheildina

„Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn og i rauninni i góðu jafnvægi. Við skoruðum frábært mark og fengum ekkert færi á okkur,“ sagði Donni þjálfari þegar Feykir leitaði eftir viðbrögðum hjá honum við úrslitunum. „Okkar leikur riðlaðist aðeins i seinni hálfleik og við náðum illa að halda i boltann. En á sama tíma gerði FH vel og komu sér í góðar stöður og nokkur færi. FH voru góðar og áttu klárlega skilið stigið en ég er að sama skapi mjög sáttur með barráttuna og liðsheildina.“ Hann sagði stöðu liðsins í deildinni vera á réttri leið og stefnan sé að bæta í og halda áfram. Donni reiknarmeð að styrkja lið Tindastóls nú þegar leikmannaglugginn hefur opnað og bæta við einum til þremur leikmönnum.

Staðan á toppi Lengjudeildarinnar er gríðarlega jöfn og útlit fyrir æsispennandi síðari umferð. Sem stendur eru lið FH og Tindastóls á toppnum með 20 stig en FH á leik til góða gegn Fylki og þar má reikna með sigri Hafnfirðinga. Lið Víkings er í þriðja sæti með 19 stig og síðan koma Guðni Þór og HK-stelpurnar í því fjórða með 18 stig en liðið á leik inni, gegn spræku liði Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis fyrir austan. Austfirðingarnir eru með 15 stig og mundu með sigri planta sér rækilega í toppbaráttu Lengjudeildarinnar og því mikið undir þegar liðin mætast á laugardaginn.

Hér má sjá viðtal við Amber Michel sem var maður leiksins samkvæmt Fótbolti.net >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir