Stólastúlkur sóttu ekki gull í greipar Snæfells

Fanney María var með sjö stig og þrjú fráköst í leiknum gegn Snæfelli. MYND: DAVÍÐ MÁR
Fanney María var með sjö stig og þrjú fráköst í leiknum gegn Snæfelli. MYND: DAVÍÐ MÁR

Stólastúlkur mættu sterku liði Snæfells í Stykkishólmi sl. miðvikudagskvöld í 1. deild kvenna. Emese Vida, ungverski risinn í liði Stólanna, var enn fjarri góðu gamni og það veikir liðið mikið. Hólmarar náðu heljartökum á leiknum strax í fyrsta leikhluta og unnu öruggan sigur, 92-56.

Eva Rún kom sínu liði yfir eftir mínútu leik, 0-2, en lið Snæfells svaraði með 13 stigum í röð og gaf þar með tóninn varðandi framhaldið. Þær leiddu að loknum fyrsta leikhluta með 16 stigum, 25-9. Munurinn var fljótt kominn í 25 stig í öðrum leikhluta en þá hljóp seigla í Stólastúlkur sem náðu að saxa aðeins á forskotið. Þristur frá Chloe var lokakarfa fyrri hálfleiks og staðan 43-25 í hálfleik.

Gestirnir náðu að halda í horfinu framan af þriðja leikhluta en 14-0 kafli Snæfells um miðjan leikhlutann reyndist þungur og heimastúlkur unnu leikhlutann 28-14. Staðan þá 71-39 og úrslitin að sjálfsögðu ráðin. Fjórði leikhluti nánast formsatriði en hann endaði 21-17 fyrir Snæfell.

Chloe Wanink var stigahæst Stólastúlkna með 15 stig að þessu sinni sem er u.þ.b. helmingurinn af meðalskori hennar. Hún náði aðeins einu 3ja stiga skoti í leiknum og setti það að sjálfsögðu niður. Eva Rún var með 12 stig og var frákastahæst ásamt Chloe með átta stykki. Þá var Inga Sólveig með níu stig, Klara Sólveig með átta, Fanney María sjö en aðrar minna. Ellefu stúlkur komust á blað hjá liði Snæfells og mikil dreifing á stigaskori.

Næsti leikur Stólastúlkna er hér heima laugardaginn 10. desember kl. 14 en þá mætir sameinað lið Hamars/Þórs í heimsókn. Leikurinn hefst kl. 14:00.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir