Stórsigur Stólastúlkna í fyrsta leiknum

Lið Tindastóls í gærkvöldi. MYND: ÁRNÝ SJÚKRAÞJÁLFARI
Lið Tindastóls í gærkvöldi. MYND: ÁRNÝ SJÚKRAÞJÁLFARI

Það var ekki beinlínis boðið upp á háspennu í gærkvöldi þegar liðin tvö, sem spáð var slökustu gengi í 1. deild kvenna í körfubolta í vetur, mættust í Síkinu. Lið Tindastóls reyndist hreinlega miklu sterkara en b-lið Breiðabliks og hefur sennilega aldrei unnið jafn stóran sigur í leik á Íslandsmóti. 69 stigum munaði á liðunum þegar lokaflautið gall en þá var staðan 95-26.

Lið Tindastóls skoraði 20 stig eða meira í öllum leikhlutum en lið Blika mest átta stig. Það hljómar því kannski fáránlega að gestirnir byrjuðu vel, settu niður þrist eftir hálfa mínútu og héldu forystunni fram yfir þriðju mínútu en þá kom Emese Vida Stólastúlkum yfir, 6-5. Þá gerði Chloe Wanink sjö stig í röð og lið Tindastóls tók öll völd í Síkinu. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 26-8 og í hálfleik var munurinn 33 stig, staðan 46-13. Stólastúlkur héldu áfram að keyra yfir andstæðingana í síðari hálfleik og slógu hvergi af. Staðan var 74-18 að loknum þriðja leikhluta og eins og fyrr segir munaði 69 stigum í leikslok.

B-lið Blika mætir ekki til leiks í 1. deildinni með atvinnumann eða -menn líkt og önnur lið og má því kannski ætla að liðið standi ekki jafnfætis andstæðingum sínum. Það þarf þó ekki alltaf að vera samasemmerki á milli. Það er hins vegar ekki gott að segja hvaða fyrirheit frammistaða Stólastúlkna gefur fyrir veturinn. Það eru erfið próf framundan í næstu tveimur leikjum; útileikjum gegn Þór Akureyri og Ármanni.

Chloe var stigahæst Stólastúlkna í gær með 34 stig en líkt og Eva Rún var hún með 32 framlagspunkta. Eva gerði 18 stig, tók 10 fráköst og átti átta stoðsendiingar – ekki slæm frammistaða hjá fyrirliðanum! Inga Sólveig skilaði tíu stigum og sjö fráköstum og Emese Vida gerði átta stig en hirti 23 fráköst. Pat þjálfari spilaði öllum mannskapnum í gær og skiluðu allar stelpurnar fínu framlagi. Sjá nánar tölfræði á vef KKÍ >

„Við erum ekki nálægt neinu botnsæti!“

Feykir hafði samband við Evu Rún Dagsdóttur, fyrirliða Tindastóls, í hádeginu og spurði hvort hún gæti útskýrt 69 stiga sigurinn. „Ég myndi segja að æfingar vikunnar hafi skilað sér á vellinum í gær,“ segir Eva Rún. „Við mættum mjög vel undirbúnar og peppaðar í leikinn. Þessa vikuna erum við loksins að mæta tíu eða fleiri á æfingar sem býr til miklu meiri orku og góða liðsheild. Við vorum 14 á leiknum, í búning eða ekki, allt liðið skiptir gríðarlegu máli. Í gær fann ég þennan sterka gameday fíling – sem er svo geggjaður! – og ekki skemmdi fyrir að vera á heimavelli með fólkið sitt í stúkunni. Við keyrðum leikinn með miklum hraða, baráttu, góðri vörn og samspili. Allt liðið fékk sínar mínútur og það var mikil leikgleði og samvinna. Ég er stolt af Emmu Katrínu sem var að stíga sín fyrstu skref í mfl. kvk, aðeins 14 ára. Hún kom sterk inn á með baráttu og skilaði fimm stigum. Leikurinn var frábær í alla staði og mjög gott að byrja tímabilið svona. En við erum bara rétt að byrja og munum halda áfram að bæta okkur með hverri vikunni og sýna hvað í okkur býr. Við erum ekki nálægt neinu botnsæti.“

Enda Stólastúlkur pottþétt í efsta sæti þegar fyrstu umferðinni lýkur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir