Sunna Þórarinsdóttir hlaut styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði HÍ

Sunna Þórarinsdóttir á útskriftardaginn í vor. Myndin er fengin af Facebooksíðu Sunnu.
Sunna Þórarinsdóttir á útskriftardaginn í vor. Myndin er fengin af Facebooksíðu Sunnu.

Í gær var styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands úthlutað til 28 nemenda úr 16 framhaldsskólum víðsvegar að af landinu. Er þetta í tíunda sinn sem úthlutað er úr sjóðnum. 

Meðal styrkþega var einn nemandi frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Sunna Þórarinsdóttir, sem lauk þaðan prófi nú í vor. Lauk hún námi á þremur árum og var dúx skólans við brautskráningu með 9,4 í meðaleinkunn. Hlaut hún viðurkenningu fyrir framúrskarandi alhliða námsárangur á stúdentsprófi náttúrufræðibrautar, framúrskarandi námsárangur í íslensku og framúrskarandi námsárangur í dönsku. Sunna hefur æft körfubolta frá níu ára aldri og hefur m.a. tekið þátt í körfuboltaakademíu Tindastóls og FNV. Sunna stefnir á nám í ensku í haust. 

Í kynningu á styrkþegum segir að þeir eigi það sameiginlegt að hafa náð framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og muni hefja grunnnám við skólann í haust. Við mat á styrkþegum er horft til árangurs þeirra á stúdentsprófi auk annarra þátta eins og virkni í félagsstörfum í framhaldsskóla og árangurs á öðrum sviðum, til dæmis í listum eða íþróttum. Þá leitast stjórn sjóðsins við að styrkja nýnema sem sýnt hafa fram á sérstakar framfarir í námi eða góðan námsárangur þrátt fyrir erfiðar aðstæður. 

Fyrstu styrkirnir voru veittir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands árið 2008 en frá þeim tíma hafa hátt í 230 nemendur tekið við styrkjum úr sjóðnum. Markmið hans er að styrkja efnilega nýnema til náms við Háskóla Íslands og nemur hver styrkur 375 þúsund krónum. Samanlögð styrkupphæð er því rúmar tíu milljónir króna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir