Súpufundur Félags ferðaþjónustunnar
Félag ferðaþjónustunnar í Skagafirði hélt súpufund á Hótel Mælifelli á Sauðárkróki í gær. Meðal gesta fundarins voru Arnheiður Jóhannsdóttir hjá Markaðsstofu Norðurlands og Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri. Félagsmenn fjölmenntu og hlýddu á fróðleg erindi um það sem er á brennidepli í ferðamálum á svæðinu.
Á fundinum var meðal annars greint frá fuglaskoðunarsýningu sem aðilar úr félaginu sóttu í sumar og fjallað um þann lærdóm sem ferðaþjónustuaðilar gætu dregið af ferðinni. Þá var fjallað um fyrirhugaða Vest Norden ráðstefnu en hún er haldin hér á landi annað hvert ár og munu aðilar á svæðinu sameinast um þátttöku þar. Þá er verið að endurútgefa ferðabækling um Skagafjörð en hann er á leið í prentun um þessar mundir.
Loks sagði Hildur Þóra Magnúsdóttir frá nokkrum samstarfsverkefnum sem eru í gangi og fjallaði um styrkjamöguleika framundan. Hildur Þóra er nýráðin til starfa sem verkefnastjóri hjá SSNV og verður hennar sérsvið ferðaþjónusta. Hildur tók til starfa 1. September síðast liðinn og mun sina öllu Norðurlandi vestra.
Félag ferðaþjónustunnar stefnir á sína árlegu haustferð í byrjun október en í lok október er fyrirhuguð uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi. Það er því í mörg horn að líta í ferðaþjónustunni, þó að sumarvertíðinni sé lokið, og eru nýir aðilar sem fyrr hvattir til að kynna sér starfsemi félagsins.