Sveitarfélagið Skagafjörður með ódýrasta leikskólaplássið

Sveitarfélagið Skagafjörður er með ódýrasta leikskólapláss á landinu fyrir 9 tíma vistun og í því fjórða fyrir 8 tíma vistun. Þetta kemur fram í verðlagskönnun sem ASÍ framkvæmdi hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins, frá 1. febrúar 2012.

Samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ er 41% verðmunur á hæsta og lægsta mánaðargjaldi á gjaldskrám leikskóla, fyrir 9 tíma vistun með fæði. Gjaldið er lægst í Skagafirði eða 30.004 kr. og hæsta gjaldið er á Fljótsdalshéraði en þar kostar mánuðurinn 42.296 kr.

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur hækkað gjaldskrá sína fyrir 9 tíma vistun um 10,2% á milli ára, en gjaldið var 27.230 kr. Hafnarfjörður hefur hækkað gjaldskrá sína mest eða um 23% á milli ára, gjaldið var 28.520 kr. en er nú 35.113 kr. Reykjanesbær hefur hækkað um 16% úr 31.030 kr. í 35.980 kr. og Reykjavík um 13% úr 32.264 kr. í 36.321 kr.

Seltjarnarnes og Ísafjörður hafa ekki hækkað hjá sér gjaldskrána milli ára. Akureyrarbær bíður ekki lengur upp á vistun í níu klukkustundir. Áberandi er að níundi tíminn er kominn með sér gjaldskrá hjá mörgum sveitarfélögum en hæsta gjaldið er hjá Kópavogi 12.000 kr. og 11.820 kr. hjá Reykjavík.

Fjórða lægsta gjaldið fyrir 8 tíma vistun

40% verðmunur er á hæstu og lægstu gjaldskrám sveitarfélagana fyrir 8 tíma vistun með fæði. Sveitarfélagið Skagafjörður er þar í 4. sæti með 27.688 kr., með hækkun úr 25.105 kr. eða um 10,3%. Hæsta gjaldið fyrir þessa þjónustu er 34.342 kr. hjá Ísafjarðabæ og lægst hjá Reykjavíkurborg 24.501 kr.

Mest hækkaði gjaldskráin fyrir 8 tíma vistun hjá Reykjanesbæ en hækkunin þar nemur 16%, fer úr 27.130 kr. í 31.480 kr. Hafnarfjörður hefur hækkað um 15% úr 26.070 kr. í 30.023 kr. og Reykjavík um 13%, úr 21.764 kr. í 24.501 kr. Ísafjörður og Seltjarnarnes hafa ekki hækkað hjá sér gjaldskrána.

Hér má skoða verðlagskönnun ASÍ nánar.

 

Fleiri fréttir