Sveitarstjórn Húnavatnshrepps lýsir yfir vonbrigðum

Frá Hveravöllum Mynd:Hveravellir.is.
Frá Hveravöllum Mynd:Hveravellir.is.

Á fundi sveitarstjórnar Húnavatnshrepps þann 5. júlí sl. var lýst yfir vonbrigðum með þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að endurskoða þurfi í heild sinni matsskýrslu vegna uppbyggingar ferðaþjónustu á Hveravöllum. Ferðamannastraumur á Hveravöllum hefur aukist ár frá ári og því telur sveitarstjórn nauðsynlegt að byggja þar upp aðstöðu til framtíðar. Niðurstaða Skipulagsstofnunar mun tefja alla þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er á Hveravöllum, segir í bókun sveitarstjórnar.

Matsskýrslan sem um ræðir var gerð á árunum 1995-1997 og var þar fjallað um mat á umhverfisáhrifum uppbyggingar ferðaþjónustu á Hveravöllum. Skipulagsstjóri féllst á fyrirhugaðar framkvæmdir en ekkert varð þó af þeim þá. Í júní 2016 barst Skipulagsstofnun erindi frá Húnavatnshreppi þar sem óskað var eftir ákvörðun stofnunarinnar um hvort endurskoða þyrfti skýrsluna, að hluta eða í heild, áður en leyfi til framkvæmda væri veitt. Var málið tekið fyrir og leitað umsagnar Húnavatnshrepps, Ferðamálastofu, forsætisráðuneytisins, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands og Vegagerðarinnar.

Framkvæmdir þær sem hér um ræðir er 640 m2 þjónustumiðstöð með veitingasal, gistirými og gestastofu ásamt nýju bílastæði.

Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar kemur fram að fyrirhuguð framkvæmd nú sé umfangsmeiri en sú sem undirgekkst mat á umhverfisáhrifum á árunum 1995-1997, bæði varð varðar umfang og eðli mannvirkja og þjónustu. Einnig  hafi lagaumgjörð og stefna stjórnvalda breyst mikið á þessum tíma. Ákvörðun Skipulagsstofnunar má kynna sér betur hér

Fleiri fréttir