Sveitarstjórn Skagastrandar ályktar um nýtt strandveiðafrumvarp
Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagastrandar hefur sent frá sér ályktun þar sem tilkomu nýs frumvarps atvinnuveganefndar um strandveiðar er fagnað. Í ályktuninni segir að með frumvarpinu sé leitast við að að auka öryggi, jafnræði og efla strandveiðikerfið í heild og að jákvætt sé að þar sé gert ráð fyrir auknum aflaheimildum í kerfið og litið til aukins frjálsræðis varðandi val á veiðidögum. Báðir þessir þættir muni styrkja samfélögin við Húnaflóa.
Á hinn bóginn lýsir sveitarstjórn yfir algjörri andstöðu við þær hugmyndir frumvarpsins er að því lúta að landið allt verði einn kvótapottur fyrir strandveiðar þar sem Fiskistofa hafi svo heimildir til þess að stöðva veiðar þegar heildarmagni er náð. „Slíkar breytingar munu valda miklum tilfærslum á því hvar strandveiðar munu verða stundaðar og því stórlega veikja margar fiskihafnir og hreinlega ógna rekstargrundvelli fiskmarkaða meðal annars við Húnaflóa. Að því leyti fer frumvarpið gegn upphaflegu markmiði með strandveiðum þar sem leitast var við að styrkja sjávarbyggðir,“ segir í ályktuninni.
Sveitarstjórn skorar á sjávarútvegsráðherra að skilgreina áfram ákveðið magn til einstakra svæða eins og gert hefur verið en leitast við að ná fram jöfnuði í aflaverðmætum milli svæða með þeim hætti að aukning aflamagns skili sér hlutfallslega hærra inn á svæði þar sem meðalaflaverðmæti hefur verið lægra. Sjávarútvegsráðherra verði, að öðrum kosti, að tryggja öllum bátum á öllum svæðum minnst 48 veiðidaga óháð aflamagni sem slíkar veiðar myndu leiða af sér.
„Sveitarstjórn telur með öllu ófært að ríkisvaldið standi fyrir tilraunastarfsemi með fiskveiðikerfi eins og strandveiðar án þess að taka sjálft ábyrgð á afleiðingum þeirra breytinga. Sjávarbyggðir og smærri fyrirtæki eiga ekki að þurfa að taka á sig afleiðingar slíkra tilrauna,“ segir í ályktun sveitarstjórnar Skagastrandar sem samþykkt var á fundi hennar í gær.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.