Svekkjandi tap eftir framlengdan leik á Hlíðarenda

Tindastólsmenn máttu bíta í það súra epli að tapa fyrir liði Vals á Hlíðarenda í kvöld eftir sveiflukenndan leik. Stólarnir eiga því ekki að venjast að tapa fyrir Val en Valsmenn hafa ekki í mjög langan tíma teflt fram jafn góðu liði og nú. Eftir flottan fyrri hálfleik Stólanna komu þeir rauðu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og eftir æsispennandi lokamínútur var framlengt. Í framlengingunni gerði Pavel gæfumuninn, setti niður langan þrist þegar tæpar þrjár sekúndur voru eftir, og Stólarnir náðu ekki að kvitta. Lokatölur 95-92.

Tindastólsmenn komu sjóðheitir til leiks, spiluðu góða vörn og Valsarar fundu ekki taktinn. Eftir þrist frá Jaka Brodnik, sem átti góðan leik, var staðan 3-13 eftir rúmar þrjár mínútur og það voru Stólarnir sem voru með frumkvæðið í fyrsta leikhluta. Pavel minnkaði muninn í fimm stig en Pétur átti síðasta orðið og staðan 17-24 þegar annar leikhluti hófst. Valsmenn virkuðu ráðvilltir og Stólarnir juku muninn smátt og smátt. Um miðjan leikhlutann var staðan 21-36 og Gerel Simmons fór mikinn en eftir að karfa frá Perkovic breytti stöðunni í 21-40 tók Ágúst Björgvins, þjálfari Vals, leikhlé og heimamenn komu ákveðnir til leiks að því loknu og náðu að laga stöðuna aðeins fyrir hálfleik. Staðan 28-43.

Frank Booker sló tóninn í upphafi síðari hálfleiks með þristi en jafnræði var með liðunum fram í miðan þriðja leikhluta þegar Valsarar náðu góðum kafla. Þeir minnkuðu muninn úr 39-51 í 47-53 þegar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta og rúmri mínútu síðar voru þeir komnir yfir, 54-53, eftir íleggju frá Ragga Natt. Bilic setti þrjú stig á töfluna fyrir Stólana en það var Pavel sem sá til þess að Valsmenn höfðu tveggja stiga forystu, 58-56, fyrir fjórða leikhluta.

Tveir þristar frá Hannesi og Pétri komu Stólunum aftur í forystu, 61-67, og mest náðu Tindastólsmenn átta stiga forystu. Það eru hins vegar gæði í liði Vals og þeir héldu sér inni í leiknum. Chris Jones kom þeim síðan yfir, 76-75, og síðan var allt stál í stál næstu mínútur. Jones kom Val þremur stigum yfir, 81-78, þegar 40 sekúndur voru eftir og heimamenn virtust hafa tryggt sér sigur þegar Booker fékk tvö vítaskot. Hann klikkaði hins vegar á báðum og Simmons jafnaði með nettum þristi. Bæði lið fengu tækifæri til að stela sigrinum en leiktíminn rann út og staðan 81-81.

Pavel gerði gæfumuninn í framlengingunni

Framlengingin var jöfn og spennandi en tveir þristar frá Booker reyndust Stólunum erfiðir. Strákarnir náðu þó að jafna, Bilic með tvö víti og staðan 92-92 og 15 sekúndur eftir. Valsmenn tóku leikhlé og það var Pavel sem fékk boltann og hann lét vaða vel utan 3ja stiga línunnar þegar þrjár sekúndur voru eftir af leiknum og beint í. Perkovic fékk opið 3ja stiga skot til að jafna leikinn í blálokin en skotið var víðs fjarri.

Svekkjandi ósigur því staðreynd fyrir Stólana og slæmt að missa niður 19 stiga forystu í leik sem þessum og varnarleikur liðsins ekki í lagi í síðari hálfleik. Brodnik var bestur í liði Tindastóls með 24 stig og 12 fráköst, Bilic var sömuleiðis góður með 21 stig og Simmons skilaði20 stigum en var nokkuð óheppinn á lokakafla leiksins að setja ekki niður mikilvægar körfur sem rúlluðu af hringnum. Pétur og Perkovic voru með 10 stig hvor, Hannes fimm og Friðrik tvö. Í liði Vals var Pavel með 22 stig og níu fráköst, Jones og Booker 19 hvor og Raggi Natt 16.

Þeir sem sáu leikinn tóku eftir að Axel Kára var aldrei þessu vant ekki í treyju númer 4 en kappinn hafði fengið lánaða treyju Viðars, númer 12, til að heiðra minningu félaga síns og fyrrum fyrirliða Tindastóls, Lárusar Dags Pálssonar, sem jafnan lék í þeirri treyju og leiddi lið Tindastóls til sigurs í Eggjabikarnum árið 1999.  

Næsti leikur Tindastóls verður hér heima næstkomandi fimmtudag en þá kemur lið Þórs Akureyri í heimsókn. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir