Sviptingar á landsþingi LH – tillaga Skagfirðinga samþykkt - formaður LH segir af sér
Miklar sviptingar hafa orðið á 59. landsþingi Landsambands hestamannafélaga sem fer fram á Selfossi um þessar mundir. Í dag var kosið skriflega um tillögu hestamannafélagana í Skagafirði um að stjórn LH myndi draga til baka þá ákvörðun að hætta við mótið á Vindheimamelum árið 2016. Tillagan var samþykkt með 84 atkvæðum gegn 67.
Á þinginu var Haraldur Þórarinsson, formaður LH, sakaður um að brjóta lög og fleiri óheilindi og í kjölfarið ákvað hann að segja af sér formennsku. Í framhaldinu sagði öll stjórn LH af sér. Myndband af ræðu Haraldar má sjá á vefmiðlinum Eiðfaxi.is.
Nú hefur verið gert hlé á þinghaldi.
UPPFÆRT 17:40:
Samkvæmt vefmiðlinum Isibless.is hefur þingi er frestað til 8. nóvember, þá skal halda framhaldsfund kl. 09.00. Kjósa þarf nýjan formann og nýja stjórn áður en þinghald getur haldið áfram.
„Kjörnefndin ætlar að undirbúa kosningu og annað sem þarf að undirbúa varðandi það þing, og er þeim þakkað fyrir að taka það verkefni að sér. Allir stjórnarmeðlimir ætla að segja af sér og styðja Harald fullkomlega í þeim verkefnum sem hann hefur unnið,“ segir á vefnum. Meðlimir stjórnarinnar munu taka að sér að stjórna skrifstofu LH fram að hádegi 8. nóvember svo samtökin séu ekki stjórnlaus.