Sýrlensku flóttamannanna beðið með eftirvæntingu

Hvammstangi. Mynd: Visithunathing.is
Hvammstangi. Mynd: Visithunathing.is

Í kvöld og á miðvikudagskvöld munu 44 nýir einstaklingar bætast í hóp íbúa á Norðurlandi vestra þegar níu sýrlenskar fjölskyldur koma til Hvammstanga og Blönduóss eftir að hafa dvalið í flóttamannabúðum í Líbanon undanfarin ár. Undirbúningur fyrir komu fólksins hefur staðið yfir undanfarnar vikur og er nýju íbúanna beðið með eftirvæntingu.    

Í hádegisfréttum Ríkisútarpsins í gær var rætt við við Guðrúnu Margréti Guðmundsdóttur, verkefnastjóra á vegum Rauða krossins. Guðrún sagði að að móttaka íbúanna hefði krafist mikillar vinnu fjölda sjálfboðaliða og síðustu dagar hafi verið strembnir en að allt væri að verða klárt á báðum stöðum. 

Að sögn Guðrúnar hefur undirbúningurinn meðal annars falist í því að taka á móti sendingum frá IKEA, þvo upp matarstell og setja í skápa og setja rúm saman. „Fólk hefur mikið verið að spreyta sig á IKEA leiðbeiningum og svo hefur líka verið mikið mál að safna húsgögnum frá bæjarbúum og koma þeim fyrir.“

Fyrri hluti hópsins kemur til Hvammstanga í kvöld og sá síðari til Blönduóss á miðvikudagskvöld. Guðrún segir íbúa vera spennta fyrir komu fólksins. „Fólk stoppar mig allavega úti á götu og spyr hvenær fólkið fari að koma og það er bara almennur spenningur. Krakkarnir í skólanum eru ofboðslega spennt og við, ég og fólkið og verkefnastjórarnir, höfum verið á fullu og túlkar að funda með lykilaðilum innan stofnana. Mér heyrist að það sé mikiill spenningur alls staðar og eftirvænting,“ sagði Guðrún Margrét Guðmundsdóttir í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir