Systurnar Hjördís Halla og Þórgunnur Íslandsmeistarar

Glæsileg frammistaða hesta og knapa en þær systur Hjördís Halla og Þórgunnur Þórarinsdætur gerðu sér lítið fyrir og lönduðu Íslandsmeistaratitlum um helgina á þeim Flipa og Hnjúki. Mynd: Þórarinn Eymundsson.
Glæsileg frammistaða hesta og knapa en þær systur Hjördís Halla og Þórgunnur Þórarinsdætur gerðu sér lítið fyrir og lönduðu Íslandsmeistaratitlum um helgina á þeim Flipa og Hnjúki. Mynd: Þórarinn Eymundsson.

Íslandsmót barna og unglinga í hestaíþróttum fór fram í Borgarnesi um helgina og er óhætt að segja að systurnar Hjördís Halla og Þórgunnur Þórarinsdætur á Sauðárkróki hafi staðið sig afburða vel með reiðskjóta sína.

Þórgunnur keppti í unglingaflokki á hestinum Hnjúki frá Saurbæ og varð tvöfaldur Íslandsmeistari, annars vegar í fimi og hins vegar í fjórgangi. Þá varð hún önnur í 100 m skeiði, landaði fjórða sætinu fimmgangi og loks endaði hún í því fimmta í gæðingaskeiði.

Hjördís Halla varð Íslandsmeistari í tölti í barnaflokki á hestinum Flipa frá Bergsstöðum og annað sætið varð hennar í fjórgangi.

Stelpurnar eru dætur þeirra Sigríðar Gunnarsdóttur, sóknarprest á Sauðárkróki, og Þórarins Eymundssonar, hestamanns og afreksmanns í hestaíþróttum, en hann hefur aðstoðað þær systur eftir föngum og þjálfað. Segir hann að þær hafi þjálfað hesta sína, með stuttum hléum inn á milli, í nokkur ár frá því í október, fjóra til sex daga í viku.

„Þú þjálfar ekki fyrir svona mót rétt fyrir mót. Til þess að knapi getir gert þetta þarf margra ára þjálfun eins og í öðrum íþróttum og þjálfa knapa og hest saman í langan tíma. Eins og í okkar tilfelli þá hafa stelpurnar verið með þessa hesta í nokkur ár og þjálfað. Þórarinn segir Íslandsmótið alltaf að verða sterkara og sterkara, þátttaka mikil og hestakosturinn sífellt betri en mörgum stóðhestum er teflt fram bæði í barna og unglingaflokki ásamt hátt dæmdum gæðingum.

Á Íslandsmóti, bæði fullorðinna og ungmenna, hafa rétt til þátttöku efstu pör á stöðulistum sem metinn er út frá árangri á löglegum keppnum fram að fimm dögum áður en mót hefst. Af því leiðir að keppendafjöldinn er ekki eins mikill og á Landsmóti en fyrir vikið mæta sterkustu knapar landsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir