Tafir á sjúkraflugi vegna ástands flugvallar

Eins og sagt var frá hér á Feykir.is sl. fimmtudag varð harður árekstur við bæinn Miðhús í Blönduhlíð þar sem tveir bílar skullu saman og voru allir sem í bílnum voru fluttir á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.

Í fréttum vísis.is og Bylgjunnar fyrr í dag var svo vísað í ofangreint slys og sagt frá því að tafist hefði um nokkra klukkutíma að koma stór slösuðum manni á Landsspítalann þar sem Isavia hafði ekki hirt um að halda flugvellinum á Sauðárkróki opnum og tækjabúnaði í lagi.

Sjúklingurinn hafði höfuðkúpubrotnað við áreksturinn og munu sjúkraflutningamenn þegar hafa óskað eftir sjúkraflugvél til að flytja manninn á Landspítalann. Kom þá í ljós að völlurinn hafði verið ófær vegna snjóa í nokkra daga og að Isavia var búin að segja eftirlitsmanni vallarins upp, nema hvað hann sinnir áfram útköllum. Hann brá skjótt við, en ljóst var að það tæki að minnsta kosti klukkustund að ryðja völlinn.

„En þegar til átti að taka kom í ljós að snjóruðningstækið var rafmagnslaust og að töfin yrði enn lengri. Var þá brugðið á það ráð að flytja hinn slasaða í sjúkrabíl í flug hálku yfir Öxnadalsheiðina og á sjúkrahúsið á Akureyri, þar sem hann fékk aðhlynningu fyrir flugið til Reykjavíkur. Það tafðist því um nokkrar klukkustundir að hann kæmist á Landsspítalann,“ sagði í fréttum Bylgjunnar.

Enn fremur er haft eftir Þorkeli Ásgeiri Jóhannssyni, flugstjóra hjá Mýflugi sem annast sjúkraflug, að svona ásigkomulag flugvalla sé ekkert einsdæmi. Hann segir að dæmi séu um að heimamenn á landsbyggðinni opni flugvelli í sjálfboðavinnu í neyðartilvikum.

Fleiri fréttir