Talnaspekingurinn með iPadinn
Benedikt Lafleur tók þátt í stórri skyggnikeppni í Úkraínu á síðasta ári en keppnin var í raun sjónvarpsþáttaröð með 34 milljónir áhorfenda. Í keppninni voru þátttakendur fengnir til að þreyta fjölmargar taugatrekkjandi áskoranir sem reyndu bæði á líkama og sál. „Ég vissi ekkert hvað ég var að fara í. Við fórum á styrjaldarsvæði, fullt af hermönnum allsstaðar og þeir allir mjög alvarlegir á svipinn en þá var þetta allt sviðsett,“ segir Benedikt um fyrstu reynslu sína af töku þáttanna í nýjasta tölublaði Feykis.
Skjáskot úr skyggnikeppni þáttaröðinni sem Benedikt var þátttakandi í í Úkraínu. Myndir/Skjáskot úr þáttunum.
„Síðan átti ég að standa á sama staðnum í tvo tíma í steikjandi sól og 30 stiga hita og sjá í gegnum vegg og segja hvað var að gerast hinum megin við hann. Mér tókst það einhvern veginn á endanum, ég fékk svona mynd í hugann. Þá byrjaði ég að rækta hæfileikana að sjá í gegnum hluti en þetta var allt í þessum dúr,“ segir Benedikt og brosir.
Það færist meiri alvara yfir Benedikt þegar hann segir frá einni áskoruninni sem honum var gert að takast á við en hún fólst í því að aðstoða lögregluna að leysa morðmál. „Það var svakalegt og hafði sérstaklega mikil áhrif á mig. Ung kona sem hafði verið myrt á hrottalegan hátt og henni nauðgað einungis tveim til þremur mánuðum fyrr. Í einum þættinum hitti ég sjálfa móður konunnar. Það var ofboðslega erfitt,“ segir hann og andvarpar.
Af 150 þátttakendum endaði Benedikt í þriðja sæti sem hlýtur að teljast glæsilegur árangur. Hann segir frá þessari sérstöku lífsreynslu í nýjasta tölublaði Feykis sem kom út í dag og þeirri tilfinningalegu rússíbanareið sem keppnin hafði í för með sér – og ástinni sem hann fann í leiðinni.