Tap fyrir Snæfelli í Síkinu
Tindastóll sýndi Snæfellingum óþarfa gestrisni í kvöld þegar liðin áttust við í Iceland-Express deildinni. Lokatölur urðu 88-95. Það sem helst gladdi áhorfendur í Síkinu í kvöld var að Tindastóll tefldi fram al-Skagfirsku liði og eru sannarlega ár og dagur síðan það gerðist síðast.
Sigurður Þorvaldsson var Skagfirðingum erfiður í fyrri hálfleik, en hann skoraði alls 23 stig í hálfleiknum. Talsverður hæðarmunur var á liðunum og olli það heimamönnum erfiðleikum oft á tíðum.
Staðan í hálfleik var 45-51 eftir snarpan sprett heimamanna og allar forsendu fyrir spennandi síðari hálfleik. Snæfellingar sýndu þó strax í upphafi þriðja leikhluta að þeir ætluðu sér heim með sigur í farteskinu og komu öflugir til leiks. Sér í lagi Jón Ólafur Jónsson sem skoraði 7 fyrstu stig Snæfellinganna og gaf tóninn fyrir framhaldið.
Staðan þegar þriðji leikhluti hófst var 58-72 og gáfu Snæfellingar aldrei færi á sér eftir það og unnu öruggan sigur eins og áður sagði 88-95.
Helgi Rafn Viggósson skoraði 18 stig fyrir Stólana í kvöld, Ísak Einarsson gerði 17 stig, Svavar Birgisson 14, Friðrik Hreinsson 13, Axel Kárason 11, Óli Barðdal 6, Halldór Halldórsson 5, Einar Bjarni Einarsson 2 og skv tölfræðivef KKÍ var Hreinn Birgisson með 2 stig en hann sat í borgaralegum klæðum á bekknum. Eitthvað hefur tölfræðin skolast til líka þar sem aðeins 14 fráköst voru skráð á TIndastólsliðið allt í allt. Fréttaritari fullyrðir að það sé rangt.
Sigurður Þorvaldsson var stigahæstur gestanna með 29 stig, Jón Ólafur skoraði 22 og Hlynur Bæringsson gerði 14 auk þess að hirða 11 fráköst.