Tap í lokaleik og tímabilið hálfgerð vonbrigði
Leikur Hvatar og Völsungs á laugardag varð aldrei sú skemmtun sem hann hefði getað orðið enda bauð veðrið upp á tækifæri fyrir góðan leik beggja liða. Eitt mark var skorað í sitthvorum hálfleiknum og voru það gestirnir sem gerðu bæði mörkin. Lokastaðan því 0-2 fyrir Völsung sem endaði því í 3ja sæti með 43 stig en Hvatarmenn luku keppni í 5. sæti með 32 stig.
Fyrri hálfleiks leiksins verður vart minnst fyrir snilldartakta leikmanna en lítið gerðist fyrr en á 23. mínútu er Völsungar komust í ákjósanlegt færi á markteigshorninu en Jens Elvar Sævarsson, sem hljóp í skarðið í markinu vegna meiðsla Atla markmanns í upphitun, varði vel í horn. Upp úr horninu skoraði Kolbeinn Kristinsson mark með góðu skoti en hann var einn og óvaldaður á markteig heimamanna.
Fram að tepásunni átti Mirnes Smajlovic tvö fín færi fyrir heimamenn en bæði skot hans fóru rétt framhjá markinu. Staðan því 0-1 í hálfleik og heimamenn allt annað en sáttir við stöðuna. Þeir hófu seinni hálfleikinn með látum og komst Mirnes í dauðafæri einn á móti markmanni á annarri mínútu hálfleiksins en í stað þess að skjóta á markið ákvað hann að vippa yfir hann en markmaðurinn varði en Mirnes fékk boltann aftur og átti skot sem fór rétt framhjá marki gestanna.
Lítið gerðist í leiknum sem vert er að minnast á nema þegar Mirnes komst inn í teig Völsunga á 70. mínútu og var felldur en dómari leiksins, sem var vel staðsettur og sá því brotið mjög vel, gerði ekkert og voru heimamenn allt annað en ánægðir með það. Það var síðan ekki fyrr en á 85. mínútu að Völsungar fengu skyndisókn sem endaði með því að Elfar Árni Aðalsteinsson fékk boltann inni í teig Hvatarmanna, lék á 2-3 varnarmenn Hvatar og framhjá markmanninum og renndi boltanum í autt markið.
Eftir þetta fjaraði leikurinn út og 0-2 tap heimamanna staðreynd. Svekkjandi fyrir heimamenn þar sem gestirnir áttu einungis 3-4 skot á markið en 2 þeirra fóru inn og það dugði til að sigra leikinn.
/Húni.is