Tekið til í rekstri Húnavatnshrepps

Á síðasta fundi hreppsnefndar Húnavatnshrepps var ákveðið að lækka laun hreppsnefndar sem og annara nefnda, fjallskilastjóra og oddvita um 10% frá fyrra ári en ljóst er að leita þarf allra leiða til að draga saman í rekstri málaflokka sveitarfélagsins. Með breytingum á gjaldskrám og þjónustu er ætlunin að ná fram 34% sparnaði í sorphirðu.

Hætt er við að tekjur sveitarfélagsins munu skerðast mikið á árinu 2011 þar sem  framlög frá Jöfnunarsjóði gætu lækkað um 27 milljónir króna frá fyrra ári, fara úr 119 millj kr. í 92 millj kr. og bætist þetta á þann hallarekstur sem fyrir er.

Ekki var gerð tillaga um flatan niðurskurð á árinu 2011 í fjárhagsáætluninni, heldur verður hver málaflokkur skoðaður fyrir sig með tilliti til stöðu hans. Í heildina er gert ráð fyrir að rekstrarútgjöld málaflokka lækki um 12% frá endurskoðaðri fjárhagsáætlun fyrra árs.

Stærsti málaflokkurinn er fræðslu- og uppeldismál sem mun taka til sín um 64% af áætluðum skatttekjum eftir hagræðingakröfu sem í heild er um 9%. Gert er ráð fyrir 13% lækkun í rekstri leikskóla, 10% lækkun í rekstri tónlistarskóla og 7% lækkun í rekstri grunnskóla.

Dregið verður saman um 9% í rekstri skrifstofu og vegna yfirstjórnar. Í öðrum málaflokkum er gert ráð fyrir rekstrarútgjöld lækki á bilinu 4% til 20%.

Ýmsar aðgerðir voru samþykktar sem stuðla að sparnaði í rekstri sveitarfélagsins. M.a. var ákveðið að hætta rekstri bókasafnsins í Dalsmynni frá 1. apríl 2011 en einnig verða ýmsir styrkir á árinu 2011 felldir niður. Námsstyrkir vegna tónlistarnáms á framhaldsskólastigi verða felldir niður, greiðslur vegna ristarhliða í heimkeyrslur lögbýla verða felldar niður sem og greiðsluþátttaka í hráefniskostnaði mötuneytis grunnskóla og leikskóla.

Til að ná fram sparnaði í sorphirðu var samþykkt að gámasvæðum verði fækkað í þrjú á árinu 2011 og verði þau staðsett við Aralæk, Dalsmynni og Húnaver. Opnir gámar fyrir járn og timbur verða ekki á gámasvæðum, heldur eingöngu lokaðir midi gámar fyrir heimilissorp.

Fjárhagsáætluninni var vísað til annarar umræðu í hreppsnefnd.

Fleiri fréttir