Telja mikilvægt að endurskoða regluverk um riðuveiki

Stjórn Búnaðarsambands Skagfirðinga hefur sent Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, bréf varðandi riðumál, þar sem skorað er á ráðherra að hraða vinnu við endurskoðun á reglum sem fjalla um kröfu niðurskurðar vegna riðu í sauðfé, bótafyrirkomulag og öllu regluverki sem að því snýr.

Fram kemur í erindi sambandsins að mjög mikilvægt sé að sú endurskoðun á regluverkinu verði þolendum niðurskurðar til hagsbóta. 
„Það liggur fyrir að núverandi bótafyrirkomulag bætir ekki með ásættanlegum hætti það tjón sem bændur verða fyrir. Má þar nefna að vinnuframlag bónda við hreinsun og uppbyggingu þess sem þarf að farga og endurbyggja er ekki metið með sanngjörnum hætti miðað við umfang vinnunnar. Eins eru bætur fyrir nýjan fjárstofn ekki nema tæpur helmingur af því sem markaðsverð er á líflömbum og verður það að teljast óásættanlegt. Einnig væri eðlilegt að meta til bóta það tjón sem kvaðir um nýtingu jarðarinnar til lengri tíma eru settar eftir að riða hefur komið upp,“ segir i bréfinu.

Feykir sagði frá því fyrr í dag að athyglisverðar niðurstöður hafi komið fram úr rannsókn á verndandi arfgerð sauðfjár gegn riðu og leggur stjórn Búnaðarsambandsins áherslu á í bréfi sínu að ráðuneytið beiti sér fyrir auknum rannsóknum og aukinni vinnu við leit að verndandi geni gegn riðu í íslenska sauðfjárstofninum. „Nærtækast í þeim efnum væri til dæmis að fara strax í sýnatöku á öllu ásetningsfé á þeim svæðum sem í mestri hættu eru og auka um leið kröfur um verndandi arfgerð þess fjár sem flutt er inn á riðusvæðin við fjárskipti,“ segir ennfremur í bréfi BS til landbúnaðarráðherra.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir